Home / Fréttir / Áætlun um ESB-borgara í þýska sambandsherinn

Áætlun um ESB-borgara í þýska sambandsherinn

 

Þýskir hermenn.
Þýskir hermenn.

 

Þýsk stjórnvöld íhuga að ráða ríkisborgara annarra ESB-landa til að fjölga liðsmönnum í þýska hernum.

Ekki er ágreiningur um málið milli ríkisstjórnarflokkanna en jafnaðarmenn (SPD) segja að veita verði erlendum hermönnum þýskan ríkisborgararétt til að komast hjá að til verði her erlendra málaliða.

Lengi hefur reynst erfitt að manna þýska herinn og nú liggur fyrir ný áætlun um að bæta stöðuna: ætlunin er að leyfa útlendingum að gegna herþjónustu í Bundeswehr, þýska sambandshernum. Þýska varnarmálaráðuneytið staðfesti laugardaginn 21. júlí að það velti alvarlega fyrir sér að hrinda áætluninni í framkvæmd.

Karl-Heinz Brunner, varnarmálasérfræðingur SPD, sagði við héraðsblaðið Augsburger Allegemeine, að hugsanlega yrðu ESB-borgarar í Bundeswehr. Hann taldi þó nauðsynlegt að hver sá sem berðist fyrir Þýskaland fengi fyrirheit um þýskan ríkisborgararétt.

„Fái ríkisborgarar annarra landa inngöngu án fyrirheits um að fá þýskt vegabréf er hætta á að Bundeswehr verði málaliðlaher,“ sagði Brunner.

Þýska herinn skortir ekki aðeins nýliðun með meiri mannafla heldur einnig ný tæki og meiri birgðir.

Þeir sem vilja auka útgjöld hermála í Þýskalandi eiga undir högg að sækja. Innan ríkisstjórnarinnar er ágreiningur milli kristilegra og jafnaðarmanna um þetta mál sem ekki hefur verið leystur.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …