Home / Fréttir / Norska stjórnin sakar Rússa um tölvuárás á stórþingið

Norska stjórnin sakar Rússa um tölvuárás á stórþingið

Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, lýsir sök á hendur Rússum 13. október 2020.
Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, lýsir sök á hendur Rússum 13. október 2020.

Norsk stjórnvöld saka Rússa um að standa að baki „víðtækri“ tölvuárás (e. cyber attack) á norska stórþingið 24. ágúst 2020. Þá tókst tölvuþrjótunum að komast inn í pósthólf  nokkurra þingmanna og starfsmanna þingsins og ná í gögn þeirra.

Eftir árásina hófst rannsókn á því hvaðan árásin var gerð og gerði Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, grein fyrir niðurstöðu hennar síðdegis þriðjudaginn 13. október fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Hún sagði:

„Með vísan til upplýsinga sem ríkisstjórnin hefur erum við þeirrar skoðunar að Rússar standi að baki þessum aðgerðum. Þetta er mjög alvarlegt atvik sem snertir mikilvægustu lýðræðisstofnun okkar.“

Rússneska sendiráðið í Osló mótmælir þessari niðurstöðu hástöfum og hafnar henni sem „alvarlegri ögrun“.

Í yfirlýsingu sendiráðsins segir að „engar sannanir“ séu lagðar fram og að þessar ásakanir í garð Rússa séu „óviðunandi“. Um sé að ræða „alvarlega, vísvitandi ögrun sem skaði tvíhliða samskipti“. Beðið sé „skýringa“ af hálfu norskra yfirvalda.

Þetta er í fyrsta skipti sem norskir embættismenn segja opinberlega að Rússar standi að baki tölvuárás af þessu tagi.

Netsamræmingarmstöð Noregs (Felles cyberkoordineringssenter) skipuleggur gagnaðgerðir. Norska öryggislögreglan, PST, fer með rannsókn málsins sem afbrotamáls. Leyniþjónusta norska hersins kemur einnig að rannsókninni. Hún varaði við því í skýrslu í febrúar að Rússar beittu tölvuárásum gegn Norðmönnum og stofnunum þeirra. Í skýrslunni voru Rússar einnig sakaðir um upplýsingafalsanir til að ýta undir sundrung innan Noregs, milli íbúa í norður- og suðurhluta landsins. Allt miðaði þetta að því að veikja traust almennings í garð norskra stjórnvalda.

Ine Eriksen Søreide utanríkisráðherra segir að ríkisstjórnin vilji enn auka stafrænt öryggi hvarvetna innan lands samhliða því að efla alþjóðlegt samstarf á þessu sviði.

Í Noregi starfar stofnunin Nasjonal sikkerhetsmyndighet (NSM) sem varar við og lætur að sér kveða gagnvart alvarlegum netárásum og annarri öryggisvá á sviði upplýsingatækni. Stofnunin er undir dómsmálaráðuneytinu en einnig í tengslum við varnarmálaráðuneytið.

Hlutverk NSM er að miðla upplýsingum, veita ráðgjöf og gefa leiðbeiningar um forvarnir í öryggisskyni. Árið 2018 komu Norðmenn á fót Nasjonalt cybersikkerhetssenter (NCSC). Á vegum þeirrar netöryggismiðstöðvar er unnið að því að vernda grunnstarfsemi ríkisins, opinbera stjórnsýslu og atvinnulíf gegn net- og tölvuárásum.

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …