Home / Fréttir / Sædrónar: Ný vídd í vörnum ríkja Atlantshafsbandalagsins

Sædrónar: Ný vídd í vörnum ríkja Atlantshafsbandalagsins

34348

Líkt og þeir sem fylgjast með fréttum á Vardberg.is vita þá hefur öryggisumhverfið á Norður – Atlantshafi tekið stakkaskiptum á undanförnum árum.  Hafsvæðið er gríðarlega mikilvægt fyrir Atlantshafs­bandalagið (NATO) enda tengir það aðildarríki bandalagsins í Norður – Ameríku við þau sem eru í Evrópu.  Því þarf ekki að koma á óvart að bandalagið hafi eflt mjög eftirlit sitt á hafinu í ljósi breyttra aðstæðna þar.

Aðildarríki NATO eru nokkuð vel í stakk búin til þess að takast á við þessa áskorun.  Þau átta sig hins vegar á því að eigi þau að geta tryggt öryggi á hafsvæðinu í framtíðinni er ekki nóg að dusta bara rykið af gömlum áætlunum um varnir svæðisins heldur verða þau einnig að þróa nýja aðferðafræði.  Hún mun m.a. annars byggja á hátækni.  Slík tækni er fjölbreytt en hér er m.a. átt við ómönnuð eftirlitsför, svokallaða dróna.

Í október 2018 skrifuðu þrettán varnarmálaráðherrar NATO undir samstarfssamning um þróun dróna sem notaðir verða á hafi úti.  Á ensku nefnist verkefnið NATO Maritime Unmanned Systems Initiative (MUSI).  Markmið þess er að draga saman á einn stað þekkingu aðildarríkjanna á þessu sviði.  Frá því ríkin þrettán skrifuðu undir samninginn hafa þrjú bæst í hópinn og er því rúmlega helmingur aðildarríkja NATO aðilar að honum.

Þann 20. apríl síðastliðinn birtist grein á vefsíðunni Defense News um hlutverk dróna í vörnum NATO í framtíðinni.  Höfundar greinarinnar eru þrír.  Einn er Michael D. Brasseur sem fer fyrir rannsóknum á sædrónum hjá NATO (hann stýrir miðstöð sem á ensku nefnist Maritime Unmanned Systems Innovation Coordination Cell).  Rob Murray er meðhöfundur en hann er yfirmaður nýsköpunar hjá NATO.  Þriðji höfundurinn er Sean Trevethan sem er þjarkastjóri (e. fleet robotics officer) hjá breska flotanum.

Höfundar nefna fyrst að erfitt sé að sjá fyrir sér að NATO geti í framtíðinni tryggt öryggi hafsvæðis aðildarríkjanna án þess að nýta sér drónatækni.  Það sé einfaldlega of dýrt fyrir NATO ríkin að nota eingöngu herbúnað sem stjórnað er af mönnum.  Sem dæmi nefna þeir að árásarkafbátar bandaríska flotans sem eru af Virginíugerð kosti hver um sig um 3 milljarða Bandaríkjadollara.

Önnur ástæða þess að drónar munu nýtast NATO er að hafsvæðið sem bandalagið þarf að fylgjast með er að stækka.  Nefna greinarhöfundar að vegna hlýnunar jarðar sé norðurheimskautssvæðið að opnast fyrir skipaumferð.  Þetta hefur ekki farið framhjá Rússum sem hyggjast treysta tök sín á hluta svæðisins og má því búast við aukinni umferð rússneskra herskipa og kafbáta um það á næstu árum.  Aukinn herstyrkur Rússa þarna getur ógnað norðurvæng NATO.  Bandalagið þarf því að fylgjast vel með ferðum rússneska hersins á heimskautssvæðinu.  Drónar munu gegna mikilvægu hlutverki í því verkefni.

Dróna má einnig nýta til að tryggja öryggi neðansjávarkapla á milli NATO ríkja og fylgjast með ferðum kínverska flotans sem búast má við að verði meira áberandi á Atlantshafi á næstu árum.  Síðast en ekki síst þá munu drónar auðvelda NATO að gæta skipaleiðanna milli Norður – Ameríku og Evrópu sem eru lífæð bandalagsins komi til átaka í Evrópu.

Greinarhöfundar nefna einnig að þróun á sædrónum hafi verið afar hröð á undanförnum árum.  Þetta má m.a. sjá af því að í september á síðasta ári hélt NATO stærstu sædrónaæfingu sem haldin hefur verið.  Hún nefndist REPMUS 19 (e. Recognized Environmental Picture, Maritime Unmanned Systems 19) og var haldin undan ströndum Portúgals.  Um 800 hermenn frá sjö bandalagsríkjum NATO auk fulltrúa frá rannsóknarsetri bandalagsins, sem nefnist á ensku NATO Centre for Maritime Research and Experimentation, stjórnuðu þar tugum dróna.

Þrátt fyrir örar framfarir á sviði drónatækni benda höfundar á í lok greinarinnar að mikið verk sé óunnið á þessu sviði áður en drónar gegni mikilvægu hlutverki í vörnum NATO.  Bandalagið mun leggja áherslu á þrjá þætti á næstu árum.  Í fyrsta lagi þarf að skipuleggja hvert verði hlutverk dróna innan herafla bandalagsríkjanna.  Sú vinna byggist á þróun nýrra verklagsstaðla.  Einnig þarf NATO að finna út hvernig best sé að beita drónum í hernaði og svo þarf að tryggja örugg samskipti milli þeirra og stjórnstöðva.  Verkefnin munu taka talsverðan tíma en öruggt er að drónar verða meira áberandi í vörnum NATO ríkjanna eftir nokkur ár.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …