Home / Fréttir / Rússneski flotinn boðar æfingar undan norðurströnd Noregs

Rússneski flotinn boðar æfingar undan norðurströnd Noregs

Brjóstvarnarsvæði Rússa.
Brjóstvarnarsvæði Rússa.

Yfirstjórn norska hersins hefur sent tilkynningu til flugmanna (NOTAM, Notice to Airmen) vegna flugumferðar undan strönd Norður-Noregs, vestur af Helgeland, dagana 5. til 7. febrúar. Þetta er gert vegna boðaðra æfinga rússneskra herskipa á svæðinu en frá þeim kann að verða skotið flugskeytum.

Svæðið er á Noregshafi, rétt fyrir sunnan heimskautsbaug. Þar eru nokkrir norskir olíuborpallar og gasvinnslusvæðið Assta Hansen, nyrsta svæðið í gasleiðslukerfinu sem flytur jarðgas suður til Evrópulanda. Þetta er einnig athafnasvæði fiski- og flutningaskipa.

Morten Haga Lunde, yfirmaður leyniþjónustu norska hersins, segir við dagblaðið VG að líta beri á þessar æfingar undan strönd Noregs sem lið í brjóstvörn rússneska kafbátaflotans í Barentshafi og Íshafi.

Telji Rússar sér ógnað snúast áætlanir þeirra um að stækka brjóstvarnarsvæðið út fyrir Barentshaf og loka hafsvæðum undan norðvestur strönd Evrópu, það er Noregs, allt að GIUK-hliðinu, hafsvæðunum frá Grænlandi, um Ísland til Bretlands.

Á undanförnum tveimur árum hafa Rússar æft brjóstvarnaraðgerðir nokkrum sinnum á Noregshafi með herskipum, kafbátum og flugvélum.

Í ágúst 2019 efndu Rússar til æfingarinnar Ocean Shield. Hún hófst á Eystrasalti en breyttist óvænt í æfingu undan strönd Noregs þegar herskipin sigldu norður með henni til heimahafna í Barentshafi.

Í samtalinu við VG segir Haga Lund augljóst að Rússar vilji láta í ljós óánægju sína með NATO-æfinguna Cold Response.

NATO-æfingin verður dagana 2. til 18. mars í Norður-Noregi. Undirbúningur hennar er þegar hafinn og má sjá merki þess með auknum hernaðarlegum umsvifum þegar bandamenn Norðmanna senda menn og tæki á vettvang til að búa sig undir þátttöku í æfingunni.

Milli 15.000 og 16.000 hermenn frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi, Frakklandi, Belgíu, Þýskalandi, Danmörku, Lettlandi, Finnlandi og Svíþjóð taka þátt í æfingunni við hlið norskra hermanna.

Norski herinn segir að markmið æfingarinnar sé að tryggja að herir þátttökuríkjanna séu undir það búnir að sinna kröfuhörðum verkefnum við erfiðar vetraraðstæður.

Hluti æfingarinnar snýst um að æfa flutning landgönguliðs á skipum og sjá til þess að það komist í land.

Bandaríkjaher hafði ráðgert að senda 12.000 hermenn til þátttöku í æfingunni en hefur lækkað töluna í 3.000 vegna þess að þörf varð fleiri hermenn en áætlað var í Mið-Austurlöndum eftir að spenna jókst þar.

Heimild: BarentsObserver

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …