
Stærstu stýriflauga beitiskip rússneska Norðurflotans, langdrægar sprengjuflugvélar, kafbátaleitarvélar, þyrlur og orrustuþotur og að líkindum kafbátar tóku þátt í æfingu undan strönd Noregs sem er allt annars eðlis en rússneskar æfingar til þessa, segir í frétt sem birtist á vefsíðunni Barents Observer fimmtudaginn 11. apríl.
Norðurflotinn kallar flotadeildina sem kom saman á Barentshafi og hélt í suður út á Noregshaf „högg herafla“. Efnt var til „lifandi“ skotæfinga fimmtudaginn 11. apríl.
„Ég minnist ekki að hafa heyrt um svipaðar eða álíka flóknar „lifandi“ rússneskar skotæfingar á þessum stað í Noregshafi,“ segir Kristian Åtland, fræðimaður við Rannsóknarstofnun norska hersins við Barents Observer.
Åtland hafði áður sagt að ef til vill væri tilgangur æfingarinnar að senda skilaboð til NATO um að Rússar gætu fært út varnir, brjóstvörn, kafbáta sinna út fyrir Barentshaf. Þeir gætu lokað hafsvæðum undan norðvesturströnd Evrópu fyrir umferð skipa allt suður að GIUK-hliðinu það er að línu frá Grænlandi um Ísland til Skotlands.
Fyrir utan vígdrekana tvo Pjotr Velikij, kjarnorkuknúið orrustu-beitiskip, og stýriflauga beitiskipið Marshal Ustinov flaug sveit alls kyns flugvéla frá völlum flughersins á Kólaskaga fimmtudaginn 11. apríl fyrir norðan Knöskanes (Nord Kap – nyrsta odda Noregs) áður en flogið var í suður á æfingasvæðið um 100 sjómílur vestur af Andøya í Norður-Noregi.
Gert var viðvart um æfinguna með litlum fyrirvara og varað við ferðum skipa og flugvéla í dagsbirtu frá 11. til 14. apríl.
Talsmaður norska hersins sagði að þar sem æfingin færi fram á alþjóðlegu svæði hefðu Rússar fullan rétt til að stunda hana þarna.
Nikolai Evmenov, yfirmaður Norðurflotans sagði að æfing „högg herafla“ Norðurflotans hefði gengið vel og sagði hana hafa sannað að flotinn gæti af öryggi og fagmennsku sinnt verkefnum úti á heimshöfunum.
Minnt er á að þessi sýning Rússa á herstyrk sínum undan strönd Norðu-Noregs hafi verið sviðsett tveimur dögum eftir að Erna Solberg forsætisráðherra hitti Vladimir Pútin Rússlandsforseta til viðræðna um norðurslóðamál í St. Pétursborg.
Jafnframt kemur fram hjá Barents Observer að svæðið norðvestur af Lófót sé álíka langt í norðri og siglt var á bandaríska flugmóðurskipinu Harry S. Truman í október 2018 á lokadögum risaæfingar NATO, Trident Juncture.