
Hamas-samtökin sem berjast gegn tilvist Ísraels hafa lengi krafist þess í réttarsölum ESB-ríkja að verða afmáð af lista yfir hryðjuverkasamtök. Annar æðsti dómstóll ESB hafnaði þessari kröfu Hamas með dómi miðvikudaginn 6. mars – réttmætt er að kalla Hamas hryðjuverkasamtök. Í því felst að þau geta ekki leyst út frystar eigur sínar á reikningum innan ESB.
Hamas náði völdum á Gaza-svæðinu árið 2007 eftir að samtökin unnu sigur í kosningum Palestínumanna. Samtökin hafa verið á lista ESB yfir hryðjuverkasamtök síðan 2001.
Almenni ESB-dómstóllinn vísaði miðvikudaginn 6. mars sérstaklega til ákvörðunar ESB um að endurnýja hryðjuverkaskráninguna árið 2015.

Innan Hamas er stjórnmálalegur og hernaðarlegur armur. Samtökin halda því fram að ESB hafi komist að rangri niðurstöðu með því að flokka Hamas sem hryðjuverkahóp. Þá hafi ESB bannað samtökunum að verjast og ekki lagt fram nein efnisleg rök til að réttlæta skráningu samtakanna á listann yfir hryðjuverkasamtök.
Samtökin segjast vera „lögmæt stjórnmálahreyfing sem hafi unnið sigur í palestínskum kosningum og sé kjarni ríkisstjórnar Palestínu“.
Almenni ESB-dómstóllinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Hamas væri ekki fullvalda ríki og gæti ekki vísað til grundvallarreglunnar gegn íhlutunarrétti til að gera ákvörðun ESB að engu. Þá hefði Hamas ekki heldur leitt í ljós að aðskilnaður væri milli stjórnmálalegs og hernaðarlegs arms samtakanna.
Dómstóllinn tíundar nokkur tilvik sem sýna að Hamas hefur gert hryðjuverkaárásir á Ísraela og útlendinga.
Hamas getur áfrýjað málinu til ESB-dómstólsins sjálfs.
Almenni ESB-dómstóllinn hafnaði í desember 2018 kröfu Hamas um að ESB aflétti frystingu á eignum samtakanna.
Hamas viðurkennir ekki Ísrael og vill berjast gegn Ísraelum með vopnum.