
Í fyrra, 14. febrúar 2018, gerði hópur rússneskra orrustuþotna af Sukhoi-24 gerð sýndarárás á norska ratsjárstöð. Vélunum var snúið af leið rétt hjá norsku lofthelginni.
Þetta er meðal þess sem kom fram hjá Morten Haga Lunde, yfirmanni leyniþjónustu norska hersins í árlegri ræðu um málefni leyniþjónustunnar mánudaginn 11. febrúar sl. í Oslo Militære Samfund. Fyrr um daginn hafði Haga Lunde kynnt árlegt hættumat leyniþjónustunnar Fokus 2019.
„Málflutningur Rússa gegn Noregi hefur skerpst,“ sagði hershöfðinginn.
„Hernaðarleg umsvif Rússa á okkar slóðum gefur til kynna ógn fyrir Noreg,“ sagði Haga Lunde og lagði áherslu á að „engin merki [séu] um að samskipti Rússa og Vestursins batni árið 2019“.
Hann sýndi síðan kort til að skýra hvernig 11 Su 24 hljóðfráar þotur tóku á loft frá Monstjegorsk flugstöðinni á Kólaskaga flugu út á Barentshaf áður en þær tóku 180 gráðu beygju og flugu í árásarröð í áttina að Vardø, norðaustasta bæ Noregs.
Vardø er hefðbundið fiskiþorp á lítilli eyju undan strönd Noregs við Barentshaf. Lega eyjunnar nálægt vígvæddum Kólaskaga Rússa veldur því að hún er kjörin fyrir ratsjárstöð.
Rússar hafa lengi amast við Globus-II ratsjánni á Vardø. Opinbert hlutverk ratsjárinnar er að fylgjast með því sem fer um geiminn. Talið er að hún nýtist vel til að safna upplýsingum í gagnagrunn um langdrægar eldflaugar Rússa.
Leyniþjónusta Noregs annast rekstur ratsjánna á Vardø.
Kristian Åtland hjá Varnarmálarannsóknarstofnun Noregs er sérfróður um hernaðarumsvif á norðurslóðum. Hann segir við Barents Observer að sýndarárásinni megi líkja við „þaulskipulagða merkjasendinga aðgerð Rússa“.
„Auðvitað er Rússum ljóst að fylgst er með orrustuþotum þeirra með ratsjám þegar þær athafna sig á þessum slóðum og þegar þær nálgast í árásarfylkingu norsk mannvirki, herstöðvar eða flotaæfingasvæði. Slík hegðun ýtir ekki beint undir svæðisbundið traust og fyrirsjáanleika,“ segir Åtland.
Hann telur þetta nýjar öryggisógnir fyrir Noreg á norðurslóðum. Hann bendir á önnur svæði sem standa frammi fyrir svipuðum ógnum:
„Í öðrum löndum í austurhluta Evrópu eins og Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku, Póllandi og Eystrasaltsríkjunum, ekki síst í Úkraínu, hafa menn kynnst svipuðu framferði Rússa, jafnvel brotum gegn lofthelginni.
Þetta kann hugsanlega að auka líkur á hættulegum atvikum og leiða til þess að slæm samskipti Rússa við Vestrið og NATO versni enn frekar,“ segir Åtland.