Home / Fréttir / Ný stjórn kjörin á aðalfundi Varðbergs

Ný stjórn kjörin á aðalfundi Varðbergs

 

vardberg

Fréttatilkynning um

aðalfund Varðbergs

 

Aðalfundur Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, var haldinn fimmtudaginn 24. janúar 2019.

Björn Bjarnason, formaður félagsins, flutti skýrslu stjórnar. Starfsemin felst í fundarhöldum og umsýslu með vefsíðunni vardberg.is þar sem miðlað er fréttum sem falla að markmiðum félagsins og sérstaklega að öryggismálum á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Skýrsla formannsins fylgir hérmeð.

Björn Bjarnason, fyrrv. ráðherra, var endurkjörinn formaður. Aðrir í stjórn eru:

Auður Sturludóttir, meistaranemi í frönsku.

Gustav Pétursson, alþjóðastjórnmálafræðingur.

Kjartan Gunnarsson, lögfræðingur.

Kristinn Valdimarsson, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur.

Magnús Örn Gunnarsson, svæðisstjóri frjálslyndra stúdenta í N-Evrópu.

Sóley Kaldal, áhættustjórnunar- og öryggisverkfræðingur.

Skýrsla formanns

 

Með stofnun Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál 9. desember 2010 runnu saman tvö félög: Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg. Á árinu 2018 voru 60 ár liðin frá stofnun Samtaka um vestræna samvinnu.

Þetta er þetta fjórði aðalfundur Varðbergs en hann skal haldinn á tveggja ára fresti.  Fyrsti aðalfundurinn var haldinn 22. nóvember 2012, annar 27. nóvember 2014, þriðji 15. desember 2016 og nú er komið að þeim fjórða.

Á aðalfundinum 2016 voru kosin í stjórn:

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, formaður,
Árni Gunnarsson, fyrrv. alþingismaður,
Kjartan Gunnarsson lögfræðingur,

Kristinn Valdimarsson alþjóðastjórnmálafræðingur,
Margrét Cela, verkefnisstjóri Rannsóknaseturs um norðurslóðir og stundakennari við Háskóla Íslands,

Tryggvi Hjaltason, öryggis- og greiningafræðingur.
Þuríður Jónsdóttir, lögfræðingur.

Stjórnin skipti með sér verkum og hefur Margrét Cela verið ritari hennar, Kristinn Valdimarsson gjaldkeri og Tryggvi Hjaltason vefstjóri. Félagið ræður hvorki yfir starfsmanni né skrifstofu. Varðberg er rekið á netinu.

Snemma árs 2015 réðst Tryggvi Hjaltason í endurgerð vefsíðu félagsins vardberg.is og póstlista auk þess að tengja vefsíðuna inn á Facebook.

Nýja vefsíðan var kynnt með bréfi til félagsmanna 19. maí 2015. Nú hafa þar birst alls 1589 færslur eða greinar með fyrirsögn og mynd. Allt er þetta efni sem tengist starfi og tilgangi Varðbergs á einhvern hátt. Í raun er um ómetanlegan gagnagrunn að ræða.

Vefsíðan og Facebook síðan hafa fengið tugþúsunda heimsókna.

Öll þessi efnismiðlun er félaginu að kostnaðarlausu. Hefur hún vafalaust orðið til að fjölga félagsmönnum eða þeim sem skrá sig á póstlista félagsins. Alls eru um 750 manns á listanum, 150 fleiri en á aðalfundinum fyrir tveimur árum.

Vefkerfi félagsins virkar mjög vel og vil ég þakka Tryggja Hjaltasyni uppsetningu þess og umsýslu með því. Felst í því nokkur áskorun fyrir félagið að nýta kerfið betur til að kynna málefni sem falla undir markmið þess.

Fyrir utan miðlun á netinu snýst starfsemi félagsins um að efna til opinberra funda en fastur fundarstaður félagsins er í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns og setti stjórnin sér það mark að stefnt yrði að fjórum fundum á ári.

Hefur þetta gengið eftir árin 2017 og 2018. Fylgir skrá um fundina skýrslunni.

Ég vil sérstaklega nefna þrjá viðburði:

Ráðstefnu 23. júní 2017 í samvinnu við Alþjóðamálastofnun HÍ um aukið vægi Atlantshafs innan NATO með þátttöku ræðumanna frá flotastjórn NATO, frá Kanada, Noregi, Bandaríkjunum og Landhelgisgæslu Íslands.

Fyrirlestur sem James G. Foggo flotaforingi, yfirmaður flota NATO í Napóli, flutti 16. október 2018 í aðdraganda varnaræfingarinnar miklu Trident Juncture.

NATO-námskeið sem haldið var 27. október 2018 þar sem flutt voru fjögur fræðsluerindi um NATO og aðild Íslands að því í ljósi þróunar utanríkis- og öryggismála í okkar heimshluta.

Þessir þrír viðburðir endurspegla það sem ég tel að eigi að vera kjarninn í þessari starfsemi félagsins. Ráðstefnur um grunnþætti öryggismála, fundir með áhrifamönnum á sviði öryggismála og almennt fræðslustarf.

Það er mikils virði að eiga hljóð- og myndupptökur af öllum þessum viðburðum sem má skoða á vefsíðunni vardberg.is

Gjaldkeri gerir nánari grein fyrir reikningum félagsins en fjárhagur þess er góður. Ég vil þakka Kristni Valdimarssyni gott samstarf. Hann heldur vel utan um alla þræði í starfsemi félagsins og við skipulag á viðburðum þess.

Varðberg er aðili að Atlantic Treaty Association, ATA, samtökum félaga á borð við Varðberg í öllum NATO-ríkjunum. Það hefur verið fremur dauft yfir þessum samtökum undanfarin ár. Nú er gerð tilraun til að blása lífi í þau.

Í lok skýrslu minnar flyt ég þakkir til félagsmanna fyrir áhuga þeirra og til meðstjórnarmanna minna fyrir gott samstarf. Fjórir stjórnarmenn gefa ekki kost á sér til endurkjörs: Árni Gunnarsson, Margrét Cela, Tryggvi Hjaltason og Þuríður Jónsdóttir. Vil ég þakka þeim áhuga þeirra á málefnum Varðbergs og ánægjuleg og góð kynni í stjórn félagsins.

 

Fundir og ráðstefnur:

 

Árið 2017

 Urmas Paet, fyrrv. utanríkisráðherra Eistlands var ræðumaður á fundi í  Safnahúsinu við Hverfisgötu fimmtudag 9. mars 12.00 til 13.00 um samtíð og framtíð í Evrópu óvissunnar

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra var ræðumaður á fundi fimmtudaginn 4. maí 12.00 til 13.00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins um borgaralega öryggisgæslu.

Varðberg og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands efndu til ráðstefnu í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins föstudaginn 23. júní kl. 14.00 til 17.00 um efnið:

Aukið vægi Atlantshafs innan NATO

Setning: Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Ræðumenn:

Clive Johnstone flotaforingi, yfirmaður flotastjórnar NATO.

John Newton flotaforingi, yfirmaður Atlantshafsflota Kanada.

Sóley Kaldal, áhættuverkfræðingur á aðgerðasviði Landhelgisgæslu Íslands.

Jacob Børresen, fyrrv. foringi í norska flotanum.

Jim Townsend, fyrrv. aðstoðar-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Pallborðsumræður – þátttakendur auk ræðumanna:

Arnór Sigurjónsson, skrifstofustjóri öryggis- og varnarmála utanríkisráðuneytinu og Jóna Sólveig Elinardóttir, formaður utanríkismálanefndar alþingis.

 

Andri Lúthersson, upplýsingastjóri utanríkisráðuneytisins, var ræðumaður á fundi  fimmtudaginn 5. október kl. 12.00 til 13.00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins um utanríkisþjónustu til framtíðar.

Árið 2018

Þórunn J. Hafstein, ritari Þjóðaröryggisráðs, var ræðumaður á fundi 12.00 til 13.00 fimmtudaginn 12. febrúar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns um Þjóðaröryggisráð –  samráðsvettvang um þjóðaröryggismál

Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra, var ræðumaður á fundi kl. 12.00 til 13.00 fimmtudaginn 12. apríl í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns um utanríkisstefnu Rússa, áhrif á norðurslóðum og stöðu Íslands.

James G. Foggo, aðmíráll, yfirmaður flotastjórnar NATO í Napólí, var ræðumaður á fundi kl. 17.00 þriðjudaginn 16. október í Norræna húsinu um svör NATO og bandalagsþjóðanna við breyttri strategískri stöðu og hernaðarlegri þróun á Norður-Atlantshafi.

NATO-námskeið var haldið frá 13.00 til 17.30 laugardaginn 27. október í Veröld – húsi Vigdísar.

Fyrirlesarar:

Albert Jónsson, fyrrv. sendiherra: NATO og kalda stríðið.

Gustav Pétursson alþjóðastjórnmálafræðingur: NATO eftir 1991.

Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá NATO: NATO í dag.

Björn Bjarnason, fyrrv. ráðherra.: Ísland og NATO.

 

25. janúar 2019

 

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …