Home / Fréttir / Kínastjórn handtekur stjórnarformann Interpol

Kínastjórn handtekur stjórnarformann Interpol

Grace Meng á blaðamannafundi. Bað um að ekki yrðu teknar myndir af andliti sínu.
Grace Meng á blaðamannafundi. Bað um að ekki yrðu teknar myndir af andliti sínu.

Í tilkynningu frá alþjóðalögreglunni Interpol sagði sunnudaginn 7. október að borist hefði lausnarbeiðni frá Meng Hongwei, stjórnarformanni stofnunarinnar. Hann hvarf á ferð sinni til heimalands síns, Kína. Eiginkona Mengs óttast að líf manns síns sé í hættu.

Sunnudaginn 7. október sagði and-spillingarstofa Kína að Meng Hongwei væri til rannsóknar vegna grunsemda um ótilgreind lögbrot.

Meng sinnti öryggismálum í Kína auk þess að sitja sem fyrsti Kínverjinn í forsæti stjórnar Interpol. Hans hefur verið saknað síðan hann hélt til Kína 25. september.

„Meng Hongwei, aðstoðarráðherra ráðuneytis almannaöryggis, sætir nú rannsókn hjá Þjóðareftirlitsnefndarinnar vegna grunsemda um lögbrot,“ sagði á vefsíðu and-spillingarstofunnar.

Eftir að þessi tilkynning birtist sagði Interpol að Meng hefði beðist tafarlaust lausnar sem stjórnarformaður. Varð Suður-Kóreumaðurinn Kim Jong Yang, fyrsti varaformaður, starfandi formaður við afsögn Mengs.

Klukkustund áður en Interpol birti þessa tilkynningu sagði Grace eiginkona Mengs blaðamönnum í Lyon í Frakklandi að hún óttaðist um líf manns síns.

Grace Meng hafði ekki áður rætt við fjölmiðlamenn síðan maður hennar hvarf, hann hefði sent henni mynd af hnífi áður en hann týndist. Hún skýrði þetta sem skilaboð frá honum um að hann væri í hættu. Þá bað hún um að ekki yrði birt mynd af andliti sínu, henni væri annt um eigið örygg og tveggja barna sinna.

Hún hefði síðast heyrt frá manni sínum 25. september. Hann hefði sent henni myndina af hnífnum sama dag, fjórum mínútum eftir að hann sendi henni þessi boð: „Bíddu eftir hringingu frá mér.“ Hann hringdi aldrei og hún vissi ekkert um örlög hans.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …