Home / Fréttir / Ákveðið að endurvekja 2. flota Bandaríkjanna

Ákveðið að endurvekja 2. flota Bandaríkjanna

 

Frá flotastöðinni í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum.
Frá flotastöðinni í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum.

Ákveðið hefur verið að endurvekja 2. flota Bandaríkjanna sem starfar við austurströnd Bandaríkjanna og austur undir suðurodda Grænlands. Frá þessu var skýrt í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum föstudaginn 4. maí. Höfuðstöðvar flotans verða þar og einnig verður þar aðsetur nýrrar Atlantshafsflotastjórnar NATO.

2. floti Bandaríkjanna hvarf úr sögunni árið 2011 en fyrst var til hans stofnað árið 1950 og gegndi hann mikilvægu hlutverki við að fylgjast með ferðum sovéskra kafbáta í nágrenni Bandaríkjanna og ferðum hersksipa Sovétmanna.

Að flotinn skuli endurvakinn nú er talið til marks um vaxandi spennu í samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna. Í nýrri varnarstefnu Trump-stjórnarinnar fyrir Bandaríkin er sett í forgang að svara mætti Rússa og Kínverja og í samtali við CNN-sjónvarpsstöðina sagði fulltrúi bandaríska flotans að nýtt  stórvelda-kapphlaup krefðist þess að hugað yrði að Atlantshafinu. Með því að endurvekja 2. flotann væri lögð áhersla á aukinn bandarískan fælingarmátt á þessu hafsvæði.

Yfirmenn bandaríska flotans hafa undanfarið lýst áhyggjum vegna aukinna flotaumsvifa Rússa, einkum kafbátaflota þeirra. „Þeir hafa hleypt af stokkunum nýjum kafbáti sem ég get fullyrt að tæknilega minnki bilið á milli okkar og þeirra,“ sagði Richard Spencer, flotamálaráðherra Bandaríkjanna, við bandaríska þingmenn í apríl. „Við leggjum jafnframt hart að okkur til að koma í veg fyrir að þetta bil verði brúað.“

Í frétt CNN segir að embættismenn NATO og Bandaríkjastjórnar segir að frá lokum kalda stríðsins hafi kafbátaumsvif Rússa aldrei verið meiri en núna. Þeir óttist að rússneskir kafbátar geti ógnað siglingaleiðunum sem halda yrði opnum vegna liðs- og birgðaflutninga milli Norður-Ameríku og Evrópu kæmi til átaka milli NATO og Rússa.

Rússnesk njósnaskip hafa einnig verið að störfum við austurströnd Bandaríkjanna. Vladimir Pútin Rússlandsforseti skýrði frá því skömmu fyrir forsetakosningarnar í Rússlandi í mars 2018 að Rússar væru að smíða neðansjávar-dróna með kjarnavopn.

Athafnasvæði 2. bandaríska flotans er um 17 milljón ferkílómetrar og áður en hann var aflagður árið 2011 voru í honum 126 skip, 4.500 flugvélar og 90.000 manns. Nú er ætlunin að setja á fót 15 manna stjórn yfir flotann og í henni verði að lokum um 200 manns. Fjöldi skipa og flugvéla ræðst síðar.

Fyrir austan athafnasvæði 2. flotans er svæði 6. bandaríska flotans. Athafnasvæði hans nær yfir hálft Atlantshaf frá norðurskauti til suðurskauts og auk þess til Adríahafs, Eystrasalts, Barentshafs, Svartahafs, Kaspíahafs, Miðjarðarhafs og hafsvæðanna umhverfis Ísland.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …