
Fyrir viku skilaði Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, frönsku heiðursorðunni, Legion d’Honneur, æðsta heiðursmerki Frakka. Orðan er venjulega veitt fyrir „framúrskarandi árangur“ á einhverju sviði. Franskir ráðamenn sæma þó einnig erlenda forystumenn orðunni með hagsmuni Frakklands að leiðarljósi.
Meðal orðuþega eru Manuel Noriega, leiðtogi Panama, sem var síðar fangelsaður fyrir fíkniefna- og fjármálabrot, Fulgenico Batista, einræðisherra á Kúbu og Vladimir Pútin, forseti Rússlands.
Þegar orðan er fest á forystumenn erlendra ríkja er ekki alltaf skýrt frá því opinberlega sem jafnan er gert hafi orðuþeginn verið heiðraður fyrir afrek sín. Stundum líða mörg ár þar til fréttir berast um að þessi eða hinn erlendi stjórnmálamaðurinn hafi fengið heiðursorðuna. Enginn rökstuðningur fylgir ákvörðun um ráðstöfun orðunnar í þessum tilvikum.
Hjá því verður ekki komist að orðan sé veitt þeim sem síðan falla í áliti eða ávinna sér skömm. Þar má nefna bandaríska hjólreiðamanninn Lance Armstrong (hann vann sjö sinnum keppnina Tour de France en féll á lyfjaprófi) og Harvey Weinstein (framleiðanda frægra kvikmynda sem reyndist kvennaníðingur). Í október 2017 sögðust frönsk stjórnvöld hafa lagt grunn að því að afturkalla orðuna frá Weinstein.
Philippe Pétain hlaut orðuna fyrir að leiða franska herinn í fyrri heimsstyrjöldinni en hann var sviptur henni og fangelsaður eftir síðari heimsstyrjöldina vegna starfa sinna með hernámsyfirvöldum nasista sem leiðtogi Vichy-stjórnarinnar. Maurice Papon sem gegndi ýmsum trúnaðarstörfum innan franska stjórnkerfisins var sviptur heiðrinum eftir að hafa árið 1998 verið dæmdur fyrir að eiga hlut að því að gyðingar voru sendir í útrýmingarbúðir.
Um Bashar al-Assad og Manuel Noriega má segja að efasemdir hafi ríkt um réttmæti þess að heiðra þá þegar það var gert. Sé erlendum gestum boðið til Frakklands fylgir yfirleitt að þeir eru sæmdir orðu og ræðst stig hennar af formlegri virðingu þeirra en ekki endilega verðleikum.
Jacques Chirac, forseti Frakklands árið 2001, festi heiðursorðuna á Bashar al-Assad sem hafði komist til valda árið áður. Þá var Assad lítt þekktur. Hann hafði tekið við forsetaembættinu af föður sínum sem þótti harður í horn að taka. Von vestrænna ríkisstjórna var að þeim tækist að bæta samskipti sín við sýrlensk stjórnvöld eftir valdatöku Assads.
Nýlega settu frönsk stjórnvöld af stað ferli til að svipta Assad orðunni. Í stað þess að leyfa Frökkum að ná sínu fram skilaði Assad orðunni, má segja að hann hafi kosið að segja upp í stað þess að verða rekinn. Sýrlenska utanríkisráðuneytið sagði að orðan hefði verið veitt af „fylgiríki Bandaríkjanna sem styðja hryðjuverkamenn“.
Napóleon stofnaði orðuna árið 1802 og meira en ein milljón manna hefur hlotið hana. Franskir embættismenn telja að nú sé um 93.000 orðuþegar á lífi.
Heimild: The New York Times.