Home / Fréttir / Forseti Finnlands á leið í Hvíta húsið

Forseti Finnlands á leið í Hvíta húsið

Sauli Niinistö og Donald Trump.
Sauli Niinistö og Donald Trump.

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, hittir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu í Washington DC mánudaginn 28. ágúst. Finnlandsforseti segir að þeir muni örugglega ræða stöðuna á Eystrasalti. Þetta er fyrsti einkafundur Niinistös með Trump og fyrsti einkafundur forseta Finnlands með Bandaríkjaforseta í 15 ár.

Niinstö sagði þegar hann   kynnti finnskum fjölmiðlum fyrirhugaðan fund með Trump að hann vildi ræða samskipti NATO og Rússa þar sem draga mætti úr spennu með því að bæta þau.

Sameiginlegar heræfingar Rússa og Hvít-Rússa undir heitinu Zapad (vestur) verða á Eystrasalti í september. Finnar og Bandaríkjamenn taka þátt í annarri heræfingu við strönd Svíþjóðar.

Þá ræða forsetarnir um norðurskautsmál en Finnar fara nú með formennsku í Norðurskautsráðinu þar sem þeir tóku við forystunni af Bandaríkjamönnum.

Niinistö sagði að það hefði einnig ýtt undir ákvörðun Bandaríkjamanna um að bjóða sér til fundar við Trump að sérfræðingar Finna áttu fundi með fulltrúum Bandaríkjastjórnar og NATO sl. vor.

„Mér finnst að þeir hafi á þessum fundum áttað sig á sérþekkingu Finna á þessum málum,“ sagði forsetinn.

Finnar eiga um 30 hermenn í fjölþjóðaliðinu í Afganistan. Niinstö sagði að þeir hefðu ekki verið beðnir um að fjölga í liði sínu þótt Bandaríkjastjórn ætlaði að fjölga í liði sínu.

Trump hringdi í Niinstö snemma í desember í fyrra her, nokkrum vikum eftir að hann var kjörinn forseti. Hann sagði augljóst að Trump vissi um að finnski forsetinn hefði kannski „dálítið sérstakt samband“ við forseta Rússlands.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …