Home / Fréttir / Comey sakar Trump og stjórn hans um lygar um sig og FBI

Comey sakar Trump og stjórn hans um lygar um sig og FBI

James Comey fer með eiðstafinn fyrir þingnefndinni.
James Comey fer með eiðstafinn fyrir þingnefndinni.

James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, sat fyrir svörum í leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings fimmtudaginn 8. júní. Fyrst ræddi hann við nefndarmenn í beinni útsendingu í tæplega þrjár klukkustundar og síðan fyrir luktum dyrum þar sem rætt var um ríkisleyndarmál.

Donald Trump Bandaríkjaforseti rak Comey úr FBI-forstjóraembættinu. Comey telur að líta beri á brottrekstur sinn í tengslum við rannsókn FBI á samskiptum Michaels Flynns við Rússa. Flynn varð að hætta sem þjóðaröryggisráðgjafi Trumps vegna þess að hann gaf Mike Pence varaforseta rangar upplýsingar.

Áður en Comey kom fyrir þingnefndina sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að Trump hefði vænst af sér „hollustu“ og spurt hann hvað væri unnt að gera til að „fjarlæga skýið“ vegna rússnesku rannsóknarinnar.

„Það er mitt mat að ég hafi verið rekinn vegna Rússa-rannsóknarinnar,“ sagði Comey við þingnefndina í beinu útsendingunni. „Ég var rekinn til að breyta á einhvern hátt eða reyna að breyta á einhvern hátt hvernig Rússa-rannsókninni var háttað.“

Comey sagði að í sínum huga væri ekki heldur „neinn vafi“ um að rússnesk stjórnvöld hefðu reynt að hafa áhrif á kosningarnar árið 2016 í Bandaríkjunum með tölvuinnbrotum. Hann taldi þó ekki að Rússar hefðu breytt nokkrum atkvæðum.

Eiðsvarinn sagði Comey að hann hefði ákveðið að skrifa minnisblöð eftir að hafa hitt Trump í fyrsta sinn, ýmsar ástæður hefðu verið fyrir því. Ein þeirra hefði verið að hann hefði „einlæglega haft áhyggjur af því að hann [Trump] kynni að ljúga um eðli fundar okkar“.

Þegar sagt var að samtöl þeirra hefðu ef til vill verið hljóðrituð sagði Comey: „Hamingjan góða, ég vona að til séu upptökur.“

Comey sagði að hvorki Trump né fulltrúar stjórnar hans hefðu beðið hann um að hætta að rannaska ásaknir um leynimakk með Rússum.

Comey sagði jafnframt að það hefði verið „mjög óhugnanlegt“ að hlusta á Trump segja við sig „ég vona að þú getir sleppt þessu“ um rannsóknina á Flynn.

„Ég tók þetta sem ábendingu […] Þetta er það sem hann vill að ég geri,“ sagði hann þingnefndinni. „Samhengið og orð forsetans urðu til þess að ég komst að þessari niðurstöðu.“

Comey sagðist einnig hafa af ásetningi lekið minnisblöðum sínum um Trump í von um að frásagnir í fjölmiðlum yrðu til þess að skipaður yrði sérstakur saksóknari. Gekk það eftir og var Robert Mueller, fyrrv. forstjóri FBI, skipaður sérstakur saksóknari til að rannsaka ásakanir um tengsl við Rússa.

Comey fór einnig orðum um kvöldverð sem hann sat einn í boði Trumps í Hvíta húsinu í janúar 2017. Hann sagði að Trump hefði spurt sig hvort hann hefði áhuga á að sitja áfram sem FBI-forstjóri út skipunartímann [til ársins 2013].

Comey sagði „almenna skynsemi“ hafa sagt sér að Trump vildi fá eitthvað í staðinn fyrir að hann héldi stöðu sinni hjá FBI.

Þegar hann ræddi brottrekstur sinn sagði Comey að forsetinn hefði hvað eftir annað sagt sér að hann ynni „frábært starf“. Hann sagði einnig að Trump hefði einu sinni haft símasamband við sig til þess eins að hrósa sér og segja að hann vonaði að hann héldi áfram sem forstjóri FBI.

„Þess vegna ruglaði það mig þegar ég sá í sjónvarpi að forsetin rak mig í raun vegna Rússa-rannsóknarinnar,“ sagði hann.

Hann sakaði embættismenn Trumps einnig um að reyna að „ófrægja“ sig með því að segja að FBI væri „í uppnámi“ og að Comey hefði glatað trausti æðstu samstarfsmanna sinna.

„Þetta voru lygar og ekkert annað,“ sagði hann þingnefndinni.

Comey andmælti einnig frásögn Trumps af fundum þeirra, þar á meðal kvöldverðinum í Hvíta húsinu. Trump sagði á sínum tíma við bandaríska fjölmiðla að Comey hefði viljað snæða með sér kvöldverð. Trump sagði ástæðuna þá að Comey vildi vera áfram forstjóri FBI.

Comey sagði þessa frásögn „ósanna“, hann hefði aldrei óskað eftir að komast í kvöldverðinn þar sem hann sagði að Trump hefði mælst til hollustu við sig.

Sarah Huckabee Sanders, upplýsingafulltrúi Trumps, hitti fréttamenn í Hvíta húsinu án þess að sjónvarpsmyndavélar væru á fundinum. Hún sagði í tilefni af orðum Comeys í þinginu:

„Ég get slegið því föstu að forsetinn er ekki lygari og satt að segja móðgast ég við að fá slíka spurningu.“

Hún sagðist ekki hafa hugmynd um hvort til væru upptökur af samtölum Trumps og Comeys.

Comey bar lof á Robert Mueller, sérstakan saksóknara, og sagðist sannfærður um að hann mundi „velta öllum steinum“ og afla allra nauðsynlegra upplýsinga áður en hann lyki rannsókn sinni. Hann neitaði að svara hvort hann teldi Trump reyna að hindra framgang réttvísinnar og sagði: „Það er í verkahring Bobs Muellers að upplýsa það.“

Nokkru eftir að útsendingum á fundi Comeys með þingnefndinn lauk gaf Marc Kasowitz, einkalögfræðingur Trumps, yfirlýsingu í Washington þar sem hann dró ályktanir af því sem Comey hafði sagt.

Hann sagði Trump aldrei hafa „þrýst á“ Comey og aldrei hafa „reynt að hindra“ Rússa-rannsóknina. Kasowitz hafnaði því að Trump hefði sagt við Comey „ég þarfnast hollustu“ eða beðið hann um að „sleppa“ Michael Flynn.

Lögfræðingurinn sakaði FBI-forstjórann fyrrverandi um að hafa „laumulega og einhliða“ lekið „trúnaðar“ upplýsingum til fjölmiðla.

„Við munum láta viðeigandi yfirvöldum eftir að ákvarða hvort þessir lekar séu saknæmir,“ sagði Kasowitz en beindi athyglinni að þeim ummælum Comeys að Trump væri ekki sjálfur til rannsóknar. Forsetinn teldi sig hreinsaðan af öllu og ætlaði að einbeita sér að framkvæmd stefnu sinnar.

Repúblíkaninn Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði við fréttamenn að Trump „þekkti líklega ekki“ samskiptareglur FBI og forsetaembættisins.

„Þetta er nýtt fyrir forsetann,“ sagði Ryan. „Hann lærir af því sem gerist. Ég segi ekki að það sé viðunandi afsökun. Þetta er aðeins mín skoðun.“

Heimild: dw.de

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …