Home / Fréttir / Átök í austurhluta Úkraínu harðna – stórskotahríð veldur mann- og eignatjóni

Átök í austurhluta Úkraínu harðna – stórskotahríð veldur mann- og eignatjóni

 

Úkraínustjórn hefur 22.000 manna bæinn Avdijvka á valdi sínu. Íbúar hafa orðið að setjast að í tjöldum vegna eyðileggingar af völdum átakanna.
Úkraínustjórn hefur 22.000 manna bæinn Avdijvka á valdi sínu. Íbúar hafa orðið að setjast að í tjöldum vegna eyðileggingar af völdum átakanna.

Alþjóðlegir eftirlitsmenn í Úkraínu birtu föstudaginn 3. febrúar viðvörun um „ótrúlegan fjölda vopnahlésbrota“ beggja aðila sex dögum eftir að átök tóku að magnast milli hermanna stjórnvalda í Kænugarði og aðskilnaðarsinna með stuðningi Rússa.

Viðvörunin er birt þegar nýjar fréttir berast af meiri stórskotahríð en áður á íbúahverfi og nágrenni þeirra í austurhluta Úkraínu þar sem átök hafa verið um langa hríð. Frá sunnudeginum 29. janúar hafa nokkrir tugir manna fallið á þessu svæði, þar á meðal almennir borgarar, og fleiri særst.

Lamberto Zannier, framkvæmdastjóri Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) sendi yfirlýsingu frá sér föstudaginn 3. febrúar og hvatti báða aðila átakanna til að „huga að örlögum innilokaðs fólks og láta annað víkja fyrir björgun þess“. Hann hvatti til þess að átökum yrði tafarlaust hætt og menn virtu ákvæði vopnahlésskilmála til fullnustu.

Úkraínustjórn hefur 22.000 manna bæinn Avdijvka á valdi sínu. Hann er skammt frá Donetsk, höfuðvígi aðskilnaðarsinna. Radio Free Europe/Radio Liberty (RFE/Rl) sendi mann til bæjarins og hafði hann eftir íbúum þar að aðfaranótt 3. febrúar hefði verið sú versta síðan hitnaði í kolunum að nýju. Þeir hefðu orðið að leita skjóls í kjöllurum húsa vegna „samfelldra“ sprengjuárása alla nóttina.

Snemma morguns 3. febrúar sáust að minnsta kosti sex skriðdrekar Úkraínuhers fara um Avdijvka. Nokkrar íbúðablokkir höfðu orðið fyrir skemmdum um nóttina vegna stórskotaárásanna.

Alexander Hug, yfirmaður sérstakrar eftirlitsnefndar ÖSE í Úkraínu, efndi til fundar með blaðamönnum í Avdijvka föstudaginn 3. febrúar og sagði átökin nú minna á það sem gerðist á „fyrstu dögum“ átakanna sem hófust fyrir tæpum þremur árum. Miklar skotdrunur heyrðust þegar Hug flutti mál sitt og sagði hann þær sýna að stórskotaliðið virti ekki vopnahléssamkomulagið.

Frá öðrum héruðum Úkraínu og alþjóðlegum hjálparstofnunum berst aðstoð til fólks á átakasvæðinu. Reynt er að aðstoða fólk við að leita sér skjóls fjarri heimilum sínum. Á mörgum stöðum er hvorki hiti né rafmagn í vetrarhörkunum.

Sameinuðu þjóðirnar (SÞ), ESB og önnur alþjóðasamtök hafa eindregið hvatt til viðræðna í því skyni að komast hjá frekari „hörmungum“ í átökum sem þegar hafa kostað 9.750 manns lífið frá því í apríl 2014 þrátt fyrir brothætt vopnahlé.

Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakka, sagði 3. febrúar að hann hefði hvatt Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, til að beita sér gegn frekari stigmögnun átakanna í Úkraínu.

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, sakaði fimmtudaginn 2. febrúar Rússa um „sóknaraðgerðir“ í Úkraínu og áréttaði að Bandaríkjastjórn stæði að baki þvingunum gegn Rússum vegna framgöngu þeirra í Úkraínu.

Heimild: RFE/RL.

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …