Home / Fréttir / Rússar hóta Norðmönnum með kjarnavopnum

Rússar hóta Norðmönnum með kjarnavopnum

 

Vladimir Pútín Rússlandsforseti sæmir Frants Klintsevitsj heiðursmerki.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti sæmir Frants Klintsevitsj heiðursmerki.

Frants Klintsevitsj, áhrifamikill varaformaður varnar- og öryggismálanefndar þings Rússlands, sagði við norsku sjónvarpsstöðina TV2 mánudaginn 31. október að viðvera bandarískra landgönguliða í Værnes í Noregi væri hluti af liðsafnaði Bandaríkjamanna til að gera „hnattræna leiftursókn“ og boðaði að fyrir bragðið kynni Noregur að verða kjarnorku-skotmark Rússa.

Ákveðið hefur verið að 330 bandarískir landgönguliðar verði ótímabundið til þjálfunar í Værnes um 1.000 km frá landamærum Rússlands. Klintsevitsj telur dvöl þeirra í Noregi beina hernaðarlega ógn við Rússland og við henni verði að bregðast.

Orð Klintsevitsj vega þungt þar sem hann er talinn einn áhrifamesti stjórnmálaður Rússlands þegar rætt er um varnar- og öryggismál. Hann sagði að nú kynni Noregur að verða settur „á listann yfir skotmörk strategískra vopna okkar“.

„Þetta er mjög hættulegt fyrir Noreg og Norðmenn,“ sagði hann. „Hvernig eigum við að bregðast við þessu? Við höfum aldrei áður sett Noreg á listann yfir skotmörk strategískra vopna okkar. Verði þetta svona bitnar það á íbúum Noregs. Við verðum að bregðast við skýrri hernaðarlegri ógn. Hér verðum við að grípa til okkar ráða svo að ég segi það umbúðalaust.“

Ine Eriksen Søreide, varnarmálaráðherra Noregs, hefur svarað gagnrýni Rússa vegna komu bandarísku landgönguliðanna með þeim orðum að ekki sé verið að opna bandaríska herstöð í Noregi, hér sé um tilraun að ræða og málið verði skoðað að nýju á árinu 2017.

„Það eru engin efnisleg rök fyrir þessum viðbörgðum Rússa. Þeir bregðast hins vegar á þennan hátt við öllu sem gert er í NATO-löndunum um þessar mundir,“ sagði Ine Eriksen Søreide.

Ummæli Klintsevitsj minna á svipuð ummæli háttsetts Rússa um Dani í mars 2015. Þá sagði rússneski sendiherrann í Kaupmannahöfn að kjarnorkuvopnum kynni að verða beitt gegn dönskum herskipum yrðu Danir þátttakendur í eldflaugavarnaáætlun NATO.

„Ég held að Danir átti sig ekki til fulls á afleiðingum þess sem verður ef Danir taka beinan þátt í eldflaugavörnum undir stjórn Bandaríkjamanna. Gerist það verða dönsk herskip skotmörk rússneskra kjarnaflauga,“ sagði Mikhail Vanin sendiherra í grein í Jyllands-Posten.

Heimild: thelocal.no

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …