Home / Fréttir / Spenna magnast milli Rússa og Bandaríkjamanna vegna Sýrlands – Pútín slítur samningi um kjarnorkuúrgang

Spenna magnast milli Rússa og Bandaríkjamanna vegna Sýrlands – Pútín slítur samningi um kjarnorkuúrgang

Sýrlendingar flýja heimabæ sinn undan borgarastríðinu.
Sýrlendingar flýja heimabæ sinn undan borgarastríðinu.

Bandaríkjamenn slitu mánudaginn 3. október viðræðum við Rússa um vopnahlé í Sýrlandi. Þeir sökuðu Kremlverja um að standa með flugher Sýrlands að ófyrirleitnum sprengjuárásum á umsetnu borgina Aleppo.

Eftir að hafa búið sig undir slit viðræðnanna vegna endurtekinna viðvarana bandarískra embættismanna ákvað Vladimir Pútín Rússlandsforseti að svara viðræðuslitunum með því að segja sig frá tímamótasamningi um afvopnunarmál við Bandaríkjamenn þar sem gert er ráð fyrir að hvor aðili um sig losi sig við 34 tonn af plútóníum, efni sem notað er í kjarnorkuvopn.

Slit samningsins er enn til marks um versnandi samskipti Bandaríkjamanna og Rússa sem deila nú hart um Sýrland, Úkraínu og önnur málefni. Sérfræðingar segja að spenna milli stjórnvalda landanna hafi ekki verið meiri frá lokum kalda stríðsins fyrir aldarfjórðungi.

Fyrir aðeins einum mánuði virtist John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ætla að takast að ná langþráðu samstarfi við Rússa um lausn mála í Sýrlandi með samkomulagi við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa. Kynntu þeir sameiginlega niðurstöðu sem reyndist haldlaus þegar til kastanna kom. Þar réð úrslitum að Rússar og Sýrlendingar réðust á bílalest með hjálpargögn og nauðþurftir til Aleppo.

Undanfarna daga hafa flugvélar Rússa og Sýrlendinga verið sendar til sprengjuárása á svæði í og við Aleppo þar sem 275.000 manns eru innilokuð þar af um 100.000 börn. Hundruð hafa fallið í þessum árásum.

Mánudaginn 3. október þótti fullreynt að hvorki tækist að brúa bilið milli stríðandi fylkinga né Rússa og Bandaríkjamanna. Bandaríkjastjórn sendi frá sér tilkynningu þar sem Rússar voru harðlega gagnrýndir.

Pútín lét síðan sjálfur til skarar skríða. Hann sagði að tengslin við Bandaríkjamenn hefðu versnað í „gjörbreyttu umhverfi“ og tilkynnti að hann hefði ákveðið að binda enda á aðild Rússa að samningi um úreldingu á plútóníum frá árinu 2000. Hann er einn af mörgum afvopnunarsamningum sem gerðir voru eftir kalda stríðið.

Samningurinn snýr ekkert að því hve mörg kjarnorkuvopn Bandaríkjamenn eða Rússar eiga. Heldur er hann um geymslu þjóðanna á plútóníum sem hugsanlega mætti nota til að gera kjarnorkuvopn.

Gary Samore sem leiddi viðræðurnar við Rússa um plútóníum-samninginn fyrir stjórn Bills Clintons forseta sagði að tilkynning Pútíns hefði meira stjórnmálalegt gildi en hernaðarlegt.

Í yfirlýsingu sem fylgdi tilkynningunni um ákvörðun Pútíns um að slita plútóníum-samningnum segir að þar sé um að ræða viðbrögð „við merkjum þess að strategískum stöðugleika sé ógnað og við óvinsamlegum aðgerðum Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi“.

Tíunduð eru ýmis umvöndunarefni gegn stjórnvöldum í Washington, þar á meðal aðgerðir NATO í Evrópu og meintur stuðningur Bandaríkjamanna við hægriöfl í Úkraínu. Þess er krafist að Bandaríkjastjórn bæti Rússum tjón vegna viðskiptabannsins sem sett var á þá eftir innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014.

Þá er þess einnig krafist að svonefnd Magnitskíj-lög í Bandaríkjunum sem sett voru árið 2012 verði felld úr gildi. Í lögunum er sett bann á 18 Rússa sem flestir áttu aðild að víðtækum skattsvikum og dauða uppljóstrarans, rússnesks lögfræðings, sem afhjúpaði svikin. Um málið er fjallað í bókinn Eftirlýstur efti Bill Browder sem kom hingað til lands í fyrra. Eftir að þessi lög voru sett bönnuðu rússnesk yfirvöld Bandaríkjamönnum að ættleiða börn í Rússlandi.

Embættismenn Obama segja að framganga Pútíns sé áhyggjuefni. Bandaríkjastjórn hefur undir forystu Obama sagt að hvað sem líði aukinni spennu í samskiptum Bandaríkjamanna og Rússa skuli menn líta á samninga um gjöreyðingarvopn sem ósnertanlega, með þeim sé hagsmuna beggja aðila gætt.

Frakkar vinna nú að því á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að samþykkt verði harðorð ályktun sem hvetji ríkisstjórn Sýrlands til að hætta loftárásum og heimila flutninga á hjálpargögnum og matvælum.

Vitalíj I. Tsjurkin, sendiherra Rússa hjá SÞ, sagði mánudaginn 3. október að loftárásum yrði ekki hætt á næstunni. Hryðjuverkamenn Nusra-fylkingarinnar hefðu náð austurhluta Aleppo og héldu honum í „gíslingu“, Rússar hefðu stöðvað frekari sókn þeirra. „Við reynum að tryggja að svartir fánar [hryðjuverkamanna] blakti ekki við hún í Damaskus [höfuðborg Sýrlands],“ sagði sendiherrann á blaðamannafundi.

Heimild: The New York Times, RFE/RL

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …