Home / Fréttir / 17 orrustuþotur til Úkraínu frá Slóvakíu og Póllandi

17 orrustuþotur til Úkraínu frá Slóvakíu og Póllandi

MiG-29 orrustuþota.

Pólska ríkisstjórnin lofaði fimmtudaginn 16. mars að láta Úkraínuher í té 4 orrustuþotur af gerðinni MiG-29. Föstudaginn 17. mars sagðist ríkisstjórn Slóvakíu ætla að afhenda stjórn Úkraínu 13 MiG-29 orrustuþotur til viðbótar. Allt frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir tæpum 13 mánuðum hefur stjórn landsins lýst mikilli þörf fyrir fleiri orrustuþotur. Nú eru 17 í boði frá tveimur NATO-ríkjum.

MiG-29 þoturnar voru smíðaðar á sovéttímanum og með því að gefa þær Úkraínuher brjóta Pólverjar og Slóvakar ísinn í hernaðarlegri aðstoð gegn rússneska innrásarliðinu.

Eduard Heger, forsætisráðherra Slóvakíu, tilkynnti að vélarnar 13 yrðu afhentar og auk þess loftvarnakerfi af Koub-gerð.

Andrzej Duda, forseti Póllands, sagði fimmtudaginn 16. mars að MiG-29 vélarnar fjórar sem færu frá Póllandi til Úkraínu yrðu að „fullu starfhæfar“ næstu daga.

Það stóð ekki á viðbrögðum frá Moskvu. Þar sögðu menn að það tæki ekki langan tíma að eyðileggja aðkomuvélarnar. Jafnframt var harmað að NATO-ríki létu sífellt meira að sér kveða í stríðinu.

Póllandsforseti sagði að Pólverjar mundu afhenda Úkraínumönnum fleiri flugvélar eftir að unnið hefði verið að viðhaldi þeirra. Hann sagði að Pólverjar hefðu ráð yfir um 15 MiG þotum sem þeir hefðu „fengið í arf“ á tíunda áratugnum frá Þýska alþýðulýðveldinu sem leið undir lok 9. nóvember 1989 þegar Berlínarmúrinn hrundi.

Til þessa hafa ráðamenn NATO-ríkja hikað við að bregðast jákvætt við eindregnum óskum Úkraínumanna um orrustuþotur. Varkárnina má rekja til ótta við til hvaða ráða Vladimir Pútin Rússlandsforseti kynni að grípa þegar farið yrði rauð strik hans.

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …