Home / Fréttir / Danir árétta að þeir ákveði eigin útlendingastefnu – ekki Brusselmenn

Danir árétta að þeir ákveði eigin útlendingastefnu – ekki Brusselmenn

Inger Støjberg, útlendingamálaráðherra Dana.
Inger Støjberg, útlendingamálaráðherra Dana.

Stefna framkvæmdastjórnar ESB um skiptingu hælisleitenda milli aðildarlanda ESB hefur ekki gengið eftir. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði hins vegar á blaðamannafundi föstudaginn 15. janúar að með vorinu yrði lögð fram ný og endurbætt tillaga um sama efni.

Inger Støjberg, útlendingamálaráðherra Dana, sagði sama dag að stefna Dana í útlendingamálum væri ákveðin í Danmörku en ekki Brussel.

Ráðherrann áréttaði þessa afstöðu dönsku ríkisstjórnarinnar áður en hún sá nýjar hugmyndir framkvæmdastjórnarinnar. Taldi hún því of snemmt að ræða til hvaða ráða Danir mundu grípa vegna þeirra.

Danir felldu nýlega í þjóðaratkvæðagreiðslu tillögu ríkisstjórnar sinnar um að falla frá fyrirvörum Dana gagnvart ákvörðunum ESB á sviði réttarfarsmála. Vegna þess verður reglum ESB um skiptingu hælisleitenda milli ESB-landa ekki beitt beint gagnvart þeim. Þegar Støjberg var spurð hvort Danir mundu þrátt fyrir þetta fara að óskum framkvæmdastjórnarinnar svaraði hún:

„Dönsk útlendingastefna er ákveðin í Danmörku, ekki í Brussel.“

Juncker nefndi tímabundna landamæravörslu Dana sérstaklega á blaðamannafundi sínum og sagði hana kosta 90 milljónir evra. Støjberg sagðist ekki vita hvaðan hann hefði þessa tölu.

„Þessa tölu þekki ég ekki. Framkvæmastjórnin hefur raunar áður sagt að landamæravarsla okkar sé hófleg miðað við stöðu okkar. Í því felst ekki að framkvæmdastjórnin sé áhyggjulaus. Ég get vel skilið það þegar við blasir að gripið verði til landamæravörslu og ábyrgðar flutningsaðila í fleiri löndum,“ sagði Støjberg.

Í orðum Juncker fólst að gengið yrði að reglunni um frjálsa för á innri markaðnum (EES-svæðinu) dauðri fyndist ekki sameiginleg lausn á farand- og flóttamannavandanum. Danski ráðherrann er sömu skoðunar. Støjberg telur að mörg lönd hugi að tímabundnu landamæraeftirliti.

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …