Home / Fréttir / Íransforseti ferst í þyrluslysi – harðlínumaður klerkaveldisins

Íransforseti ferst í þyrluslysi – harðlínumaður klerkaveldisins

Ebrahim Raisi, forseti Írans.

Ebrahim Raisi, forseti Írans og harðlínumaður í íranska klerkaveldinu, fórst í þyrluslysi í fjalllendi í norðvestur hluta íslamska lýðveldisins sunnudaginn 19. maí. Hann var talinn líklegur arftaki æðstaklerksins, Ayatollahs Ali Khameneis sem er 85 ára.

Íransdeild mannúðarsamtakanna Rauða hálfmánans sagði mánudaginn 20. maí að leitar- og björgunarflokkur samtakanna hefðu komist að slysstaðnum og ekki fundið neinn farþega þyrlunnar á lífi.

Fjöldi manna hafði leitað í margar klukkustundir í þoku í fjöllum og dölum Dizmar-skógar skammt frá landamærum Azerbaidjan. Þegar þyrlan fannst í brunnu skóglendi virðist aðeins stél hennar hafa verið heilt.

Hossein Amir-Abdollahian, utanríkisráðherra Írans, var einnig um borð í þyrlunni, ásamt Mehdi Mousavi, yfirmanni lífvarða forsetans, tveimur háttsettum embættismönnum frá héraðinu Austur-Azerbaidjan, flugmönnum þyrlunnar og áhöfn.

Raisi (63 ára) var íhaldssamur klerkur og fyrrverandi yfirmaður innan réttarvörslukerfis klerkaveldisins sem bar ábyrgð á margvíslegum hörkulegum aðgerðum til að brjóta á bak aftur þá meðal Írana sem vildu aukið persónufrelsi og lýðræði. Að fyrirmælum hans fóru fram fjöldahandtökur, pyntingar og aftökur tug þúsunda manna sem sættu sig ekki við ofríki stjórnenda íslamska lýðveldisins.

Hann hlaut trúarlega fræðslu sína í bænum Qom og fékk snemma viðurefnið „slátrari“. Íranskir stjórnarandstæðingar telja að á síðari hluta níunda áratugarins hafi hann átt aðild að aftökum á þúsundum pólitískra fanga. Sem yfirmaður réttarvörslunnar bar hann einnig beina ábyrgð á því að fjöldi manna var handtekinn og tekinn af lífi eftir víðtæk mótmæli gegn stjórn Írans 2019-2020.

Eftir að hann varð forseti lagði hann blessun sína yfir að stálhnefa ríkisins yrði beitt gegn hreyfingunni Konur-Líf-Frelsi sem varð til þegar Masha Amini, 22 ára stúlka, dó vegna vanvirðingar og grimmdar yfirvalda. Þá voru tugir þúsunda manna handteknir og talið er að meira en 500 hafi týnt lífi.

Þegar Raisi fórst var hann á leið frá landamærum Azerbaidjan þar sem hann hitti Ilham Aliyev, forseta Azerbaidjan. Saman tóku þeir þátt í að opna formlega mikla stíflu í landamærafljótinu Aras.

Þegar Raisi var kjörinn forseti 2021 ofbauð mörgum hvaða aðferðum var beitt til að útiloka þá sem einnig ætluðu að bjóða sig fram. Kjörsókn var minni en nokkru sinni fyrr, flestir kusu að sitja heima en margir sem fóru á kjörstað gerðu það til að eyðileggja kjörseðilinn.

Niðurlæging Raisis í kosningunum og framganga hans sem forseta minnkuðu líkur á að hann tæki við embætti æðstaklerksins af Kahmeini. Nú þykir líklegast að sonur æðstaklerksins, Motjaba, taki við af föður sínum.

Mohammad Mokhber, fyrsti varaforseti, gegnir embætti forseta þar til nýr er kjörinn sem skal gert innan 50 daga samkvæmt stjórnarskránni. Mokhber hefur stjórnað Setad, risavöxnum eignarhaldssjóði, sem margir telja lykilinn að veldi æðstaklerkisins og hirðar hans.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …