
Norðmenn grunar að Rússar noti mjaldur til njósna í hafinu við Noreg og nú er hann sagður á sveimi við Svíþjóð. Mjaldurinn sást fyrst við Norður-Noreg fyrir fjórum árum. Hann var þá með ól og dræsu sem greinilega var frá Rússlandi. Var talið að hann hefði komið frá rússneskri flotastöð. Þriðjudaginn 30. maí 2023 sögðu norsk yfirvöld að mjaldurinn hefði sést undan strönd Svíþjóðar.
„Undanfarnar vikur hefur hann hraðað för sinni og synt nokkur hundruð kílómetra,“ sagði Olav Lekve í Fiskistofu Noregs.
Hann sagði að sést hefði til mjaldursins við Lysekill fyrir norðan Gautaborg. Euronews segir að sænsk yfirvöld láti ekkert til sín heyra vegna ferða mjaldursins.
Í liðinni viku komu menn auga á dýrið inni í Oslóarfirði og hvatti fiskistofan til þess að það yrði látið í friði.
Hvalaskoðendur í Noregi hafa gefið mjaldinum heitið Hvaldimir, tengt saman orðin hvalur og rússneska mannsnafnið Vladimir.
Norska fiskistofan benti á að töluverð hætta steðjaði að Hvaldimir þegar fjöldi skemmti- og smábáta streymdi út á Oslóarfjörð til að skoða stærsta herskip heims, bandaríska flugmóðurskipið USS Gerald R. Ford, sem lá þar við festar frá 24. til 29. maí.
Lekve sagði við AP-fréttastofuna að fiskistofan hefði ekki fengið neinar tilkynningar sem gæfu til kynna að einhver hætta hefði steðjað að Hvaldimir á Oslóarfirði. Starfsmenn fiskistofunnar hefðu ekki neina skoðun á hvaðan hann kæmi.
„Þetta er lítill einmana hvalur sem vonar að hann finni aðra hvíta hvali og geti slegist í hóp þeirra,“ sagði Sebastian Strand, sjávarlíffræðingur hjá Onewhale,
samtökum sem stofnuð voru í þeim eina tilgangi að huga að heilsu og velferð Hvaldimirs
„Það eru nokkrir mjaldrar við strendur Noregs og Svíþjóðar. Hann þráir líklega að eignast fjölskyldu en hefur villst dálítið af leið,“ sagði Strand við sænsku sjónvarpsstöðina TV4.
Carl Bildt, fyrrverandi utanríkisráðherra Svía, gerði að gamni sínu þegar hann sagði við TV4 að veita ætti Hvaldimir pólitískt hæli í Svíþjóð, þetta væri hugsanlega flóttamaður sem mótmælti stríði Vladimirs Pútins Rússlandsforseta í Úkraínu.
Lekve sagði að mjaldurinn dularfulli væri eins og aðrir mjaldrar friðaður í norskri lögsögu og norsk yfirvöld hefðu hafnað öllum tilmælum um að hann yrði settur undir manna hendur.
Mjaldurinn sást fyrst árið 2019 að leik í höfn nyrst í Noregi og dró hann að sér mikla athygli. Hann er ekki lengur með ólina eins og þegar hann sást fyrst. Hann er mjög gæfur og fer gjarnan inn í hafnir og gefur sig að plasthringjum sem kastað er í hafið til að vekja áhuga hans.