Olíuskipið Vaselíj Dinkov var sent frá Múrmansk til Gulahafs í tilraunaskyni.

Rússar búa sig nú undir að sjötti refsipakki ESB komi til framkvæmda 5. desember. Hann hefur meðal annars í för með sér að hætt verður öllum olíuinnflutningi ESB-ríkjanna frá Rússlandi.

Liður í undirbúningi Rússa er að 5. október sigldi 257 metra langt olíuskip þeirra, Vasilíj Dinkov, frá Múrmansk eftir leiðinni fyrir norðan Rússland, Norðurleiðinni, rúmlega 11.000 km leið til hafnarborgarinnar Rizhao við Gulahaf í Kína. Átti skipið að koma þangað föstudaginn 18. nóvember eftir um sex vikna siglingu.

Rússneska skipafélagið Sovcomflot á skipið sem er smíðað með það fyrir augum að geta siglt við erfiðar aðstæður á heimskautasvæðum. Að líkindum hefur olíuskip aldrei áður siglt þessa leið.

Olíubann ESB skapar Rússum alvarlegan vanda. Þeir hafa haft um hálft ár til að búa sig undir hann. ESB-olíumarkaðurinn hefur verið helsti markaður rússneskra fyrirtækja til þessa. Áhrifa lokunar hans gætir ekki síst á norðurslóðum. Þar hafa stóru rússnesku olíufélögin Lukoil, Gazprom Neft og Rosneft fjárfest mikið á víðáttumiklum olíuvinnslusvæðum og í stórum mannvirkjum til flutninga á olíunni.

Þriðja stærsta rússneska olíufélagið Gazprom Neft segir að meira en 30% af heildarframleiðslu þess komi frá norðurslóðum. Takist Rússum ekki að opna nýja markaði sitja þeir sjálfir uppi með þá olíu sem þeir vinna.

Í október sagði Aleksandr Novak, aðstoðar forsætisráðherra Rússlands, að fordæmalaus þrýstingur Vesturlanda á rússneskt efnahagslíf leiddi til þess að gildi Norðurleiðarinnar og siglinga um hana margfaldaðist. Þess vegna yrðu rússnesk yfirvöld að efla þessa „lífæð“ á markvissan hátt.

Hvað sem vilja yfirvalda í Moskvu líður er þykkur ís á Norðurleiðinni í nokkra mánuði ár hvert. Ekki sé unnt að sigla um hana nema á eftir öflugum ísbrjótum.

Í nóvember 2021 festust rúmlega 20 skip á afskekktum stað þegar hafið fraus snemma og fljótt. Horfur eru ekkert betri í ár. Af ískortum má ráða að snemma í nóvember hafi stórir hlutar af Laptevhafi og Austur-Síberíuhafi verið undir þykkum marglaga hafís.

 

Heimild: BarentsObserver.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …