fbpx
Home / Fréttir / Xi Jinping vill „indæla“ ímynd Kína gagnvart öðrum

Xi Jinping vill „indæla“ ímynd Kína gagnvart öðrum

Xi Jinping, forseti og flokksleiðtogi Kína.

Xi Jinping, forseti Kína, vill að Kínverjar „stækki vinahóp sinn“ með því að hressa upp á ímynd sína út á við. Forsetinn boðaði þetta á fundi með fyrirmönnum kommúnistaflokksins og sagði mikilvægt að ásýndin bæri með sér að Kína væri „trúverðugt, indælt og virðulegt“. Ríkisfréttastofan Xinhua skýrir frá þessu, segir BBC þriðjudaginn 2. júní.

Fréttaskýrendur segja að hugsanlega leiði þessi forsetaboðskapur til þess að Kínverjar dragi úr fjandsamlegum ummælum sínum í garð annarra þjóða. Fyrir Xi vaki að stöðva málflutning sendiherra og stjórnarerindreka sem grefur undan sambandi Kínverja við aðrar þjóðir.

Kínastjórn situr undir gagnrýni fyrir mannréttindabrot á islamska Úigúr-minnhlutahópnum og harðræðið sem hún hefur beitt lýðræðissinna í Hong Kong svo að dæmi séu nefnd.

Þá hafa kínversk stjórnvöld nýlega brugðist harkalega við tilraunum Bandaríkjamanna til að rannsaka frekar hvort kórónuveiran hafi lekið úr kínverskri rannsóknarstofu í Wuhan í Kína.

Á fundi í stjórnmálaráði kommúnistaflokksins mánudaginn 31. maí 2021 sagði Xi að Kínverjar ættu að kynna málstað sinn á jákvæðan hátt.

„Það er nauðsynlegt að afla sér vina, sameina og fá meirihlutann til fylgis við sig og stöðugt stækka vinahópinn á alþjóðavettvangi,“ hefur Xinhua eftir forsetanum og flokksforingjanum. Þjóðfélagið ætti að vera „opið og sjálfsöruggt en einnig hógvært og auðmjúkt“ í samskiptum út á við. Áróðursstofnun flokksins yrði að taka af skarið um að stjórn landsins vildi „ekkert annað en efla hamingju Kínverja og hagsæld“.

Í The China Daily sagði að hlutverk blaðsins væri að sinna skyldu sinni um brúa bilið milli Kínverja og umheimsins með meiri upplýsingamiðlun.

Fréttaskýrendur segja að í orðum Xi felist fáséð viðurkenning á einangrun Kínastjórnar. Hann varð forseti 2012 og hefur síðan hvatt til hvassari framgöngu gagnvart öðrum og forræðishyggju.

Sendiherrar og stjórnarerindrekar Kína hafa látið meira í sér heyra síðari ár en áður og sýnt þeim kaldhæðni og áreiti sem þeir telja vega að Kína. Eru þessir starfshættir sagðir líkjast því sem fram kemur í kvikmyndum þar sem kínverskar sérsveitir, Wolf Warriors, ráðast á málaliða í þjónustu Bandaríkjanna – á ensku er talað um Wolf Warrior diplomacy.

Stephen McDonell, fréttaritari BBC, í Kína segir að vilji Xi Jinping að stjórn sín hafi „indælt“ yfirbragð út á við verði sendiherrar hennar að snúa sér um 180 gráður.

Sé litið til Filippseyja, Ástralíu eða Evrópu blasi við að almennt viðhorf í garð kínverskra stjórnvalda hafi snúist á verri veg. Þetta megi að nokkru rekja til ofsafullra opinberra viðbragða kínverskra stjórnarerindreka.

Hugsanlega hafi tekist að telja Xi hughvarf. Forystumenn í flokknum og innan stjórnkerfisins hafi getað sannfært hann um að diplómatía í anda „úlfa-vígamanna“ vinni gegn sjálfri sér.

Lykilorðin í boðskap forsetans séu ef til vill þau að flokksforystan verði að „fanga tóninn“ í samskiptum við umheiminn. Ber að skilja orðin þannig að hún hafi misst stjórn á tóninum? Svar margra er já.

BBC-maðurinn segir að vandinn sé auðvitað sá að svo mikið tjón hafi verið unnið að það sé ekki unnt að bæta úr því með breyttri orðræðu einni saman. Breytingin verði einnig að birtast í verki.

Hitt sé þó einnig hugsanlegt að menn hafi einfaldlega lesið vitlaust í orð flokksleiðtogans og forsetans.

Heimild: BBC

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …