fbpx
Home / Fréttir / Vinur Merkel settur af sem þingflokksformaður CDU/CSU

Vinur Merkel settur af sem þingflokksformaður CDU/CSU

Ralph Brinkhaus, nýr þingflokksformaður.
Ralph Brinkhaus, nýr þingflokksformaður.

Angela Merkel Þýskalandskanslari varð fyrir pólitísku áfalli þriðjudaginn 25. september þegar náinn samstarfsmaður hennar undanfarin 13 ár, Volker Kauder, tapaði í kosningu um formennsku í sameinuðum þingflokki kristilegra CDU/CSU í þinginu í Berlín. Ralph Brinkhaus, varaformaður þingflokksins, náði kjöri í leynilegri atkvæðagreiðslu með 125 atkvæðum gegn 112 fyrir Kauder.

Á 13 árum hafði enginn boðið sig fram gegn Kauder við kjör þingflokksformanns. Brinkhaus sagðist hafa áhuga á að virkja þingflokkinn betur í stjórnarsamstarfinu við jafnaðarmenn (SPD). Hann tók skýrt fram að ekki ætti að líta á framboð sitt sem vantraust á Merkel.

Margir þýskir stjórnmálaskýrendur túlka formannsskiptin í þingflokknum sem vott að byltingu og segja að í þeim felist merki um að Merkel njóti minni stuðnings en áður innan kristilegu flokkanna. Aðrir valdamenn í flokkunum eins og Horst Seehofer leiðtogi CSU og Alexander Dobrindt, formaður sérstaks þingflokks CSU, studdu líka Kauder.

Í stuttri yfirlýsingu að loknu kjörinu fór Merkel þakkarorðum um Kauder fyrir áralanga forystu hans, hún óskaði Brinkhaus til hamingju með sigurinn og sagðist mundu leggja honum það lið sem hún gæti.

Hún lýsti einnig vonbrigðum sínum með úrslitin og sagði: „Þannig er lýðræðið, stundum tapar maður, undan því verður ekki vikist.“

Starfsvettvangur Brinkhaus var skattaráðgjöf áður en hann settist á þing fyrir CDU árið 1998. Hann hefur helgað sig fjármálum ríkisins og peningamálum á þingi.

Á síðari árum hefur tvisvar komið til árekstra Merkel og Brinkhaus. Fyrst árið 2017 þegar hann gagnrýndi harðlega tillögu hennar um að takmarka heimildir forstjóra til að afskrifa skatta. Í seinna skiptið í apríl 2018 þegar hann birti harðorða álitsgerð gegn tillögum Emmanuels Macrons Frakklandsforseta um breytingar á Evrópusamstarfinu.

Angela Merkel hefur verið kanslari í 13 ár. Hún leiðir nú fjórðu ríkisstjórn sína. Sífellt fleiri velta vöngum yfir hve lengi henni sé í raun sætt í kanslaraembættinu. Það tók hana marga mánuði að mynda ríkisstjórn eftir þingkosningarnar í september 2017. Flokkur hennar fór illa út úr kosningunum og tapaði verulegu fylgi til AfD, flokks með harða útlendingastefnu til hægri við CDU/CSU. Hvert vandræðamálið eftir annað hefur einkennt stjórn hennar frá því að hún var mynduð í mars.

Innan flokks Merkel verður fylgst betur en áður með öllum pólitískum straumum og fylgisminnkun rakin til hennar í ríkara mæli en áður. Í október verður efnt til sambandslands-þingkosninga í Bæjaralandi og Hessen. Persónlega á Merkel þó meira undir því sem gerist á landsfundi CDU í desember. Þar býður Merkel sig fram til endurkjörs. Úrslit í þeirri kosningu um 1.000 flokksmanna gefa vísbendingu um hollustu við hana í flokknum. Minnki stuðningur við hana hækka þeir róminn sem vilja nýjan flokksformann.

Stjórnmálafræðingar bentu miðvikudaginn 26. september á að enn hefði Merkel í hendi sér hvenær hún hætti og hvernig. Það kynni þess vegna að falla að hagsmunum hennar að marka sér braut af vettvangi stjórnmálanna fyrir lok kjörtímabilsins.

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …