Home / Fréttir / Vestager frá Danmörku vill verða forseti ESB-framkvæmdastjórnarinnar

Vestager frá Danmörku vill verða forseti ESB-framkvæmdastjórnarinnar

Margrethe Vesager, Frans Timmermans og Manfred Weber.
Margrethe Vesager, Frans Timmermans og Manfred Weber.

 

Fulltrúi Dana í framkvæmdastjórn ESB, Margrethe Vestager, segist hafa hug á að verða forseti framkvæmdastjórnar ESB næstu fimm árin. Niðurstaða um hver skipar þetta forystusæti ESB eftir að Jean-Claude Juncker hverfur úr því að loknu kjörtímabili sínu ræðst eftir kosningarnar til ESB-þingsins 26.  maí.

Vestager tók af skarið um framboð sitt í svonefndu spitzenkandidatdebat (oddvitaviðræðum) í ESB-þinginu í Brussel fimmtudaginn 16. maí. Þar var hún þátttakandi fyrir Alde-þingflokkinn (frjálslynda), sjálf er hún þó ekki í framboði til ESB-þingsins. Í umræðunum átti hún í orðaskiptum við oddvita annarra ESB-þingflokka en þeir stefna einnig á forsetastólinn í framkvæmdastjórninni.

Margrethe Vestager er móðir þriggja dætra. Hún sat sem ráðherra í dönskum ríkisstjórnum og var formaður flokksins Radikale venstre.

Það eru ríkisoddvitar ESB-ríkjanna sem tilnefna forseta framkvæmdastjórnarinnar „með hliðsjón af kosningunum til ESB-þingsins“. Tilnefningaferlið hefst formlega að loknum kosningunum sunnudaginn 26. maí. Ákveðið er að leiðtogaráð ESB komi saman til aukafundar í Brussel þriðjudaginn 28. maí til fara yfir nöfnin. Um einum mánuði síðar hittist leiðtogaráðið að nýju og þar verður reynt að komast að samkomulagi um hvaða nafn skuli sent ESB-þinginu sem tekur endanlega ákvörðun.

Á dönsku vefsíðunni altinget.dk viðurkennir Margrethe Vestager að löng leið og ströng sé að forsetastólnum og líkur á að hún nái markmiði sínu séu litlar.

Margir eru um hituna.

Á leiðtogaráðsfundinum í júní ræðst ekki aðeins hverjir verða í framkvæmdastjórn ESB heldur einnig í forystusætum í leiðtogaráðinu, utanríkisþjónustu ESB og Seðlabanka evrunnar.

Fyrir utan Vestager vilja oddvitar EPP-þingflokksins (mið-hægri) Manfred Weber og þingflokks jafnaðarmanna, Frans Timmermans, verða forsetar framkvæmdastjórnarinnar.

Ekkert þeirra þriggja er öruggt um að koma yfirleitt til álita í leiðtogaráðinu. Á fundi sínum í febrúar ákvað leiðtogaráðið að ekki væri „nein sjálfvirkni“  milli oddvitaferlisins og valsins á næsta forseta framkvæmdastjórnarinnar.

Margerethe Vestager hefur áunnið sér virðingu langt út fyrir raðir ESB-landanna sem samkeppnisstjóri ESB. Hefur hún tekið stór heimsfyrirtæki föstum tökum og sektað um risafjárhæðir.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Lars Findsen, forstjóri njósnastofnunar danska hersins.

Yfirnjósnari Dana varar við kínverskum hátæknifyrirtækjum

Lars Findsen, yfirmaður njósnadeildar danska hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste (FE), segir í forsíðuviðtali við Jyllands-Posten mánudaginn …