Home / Fréttir / Vara-forsætisráðherra Ítalíu segir Emmanuel Macron „hræðilegan forseta“

Vara-forsætisráðherra Ítalíu segir Emmanuel Macron „hræðilegan forseta“

Matteo Salvini.
Matteo Salvini.

Ítalskir ráðamenn spara ekki stóru orðin þegar þeir lýsa afstöðu sinni til frönsku ríkisstjórnarinnar og þó sérstaklega Emmanuels Macrons forseta. Hefðbundið er náin samstaða milli stjórnvalda í París og Róm innan ESB og á öðrum vettvangi. Hún er nú í algjöru uppnámi.

Matteo Salvini, varaforsætisráðherra og innanríkisráðherra, sagði á FB-síðu sinni þriðjudaginn 22. janúar að hann vonaði að Frakkar losuðu sig fljótlega við „hræðilegan forseta“ sinn.

„Tækifæri til þess gefst 26. maí [kosið til ESB-þingsins] þegar frönskum almenningi gefst loksins færi á að ná aftur valdi á eigin framtíð, örlögum og virðingu, allt er þetta nú í vondum höndum hjá manni eins og Macron,“ sagði Matteo Salvini á FB-síðu sinni.

Hann sagði „af öllu hjarta standa með frönskum almenningi, milljónum karla og kvenna sem búa í Frakklandi undir hræðilegri stjórn og hræðilegum forseta.“

Forystumenn í ítölskum stjórnmálum hafa opinberlega fagnað mótmælum gulvestunga í Frakklandi sem hófust í nóvember. Þeir gera alvarlega aðför að Emmanuel Macron og stjórn hans. Forsetinn hefur boðað „þjóðarumræður“ í von um snúa málum sér í hag. Þúsundir aðgerðasinna hafa verið handteknir um helgarnar 10 sem blásið hefur verið til mótmælanna.

Facebook-skrif Salvinis er aðeins síðasta „gusan“ sem Macron og stjórn hans fær frá ráðamönnum Ítalíu. Sunnudaginn 20. janúar sakaði leiðtogi Fimmstjörnu-hreyfingarinnar, Luigi Di Maio, hinn vara-forsætisráðherra Ítalíu, Frakka um að bera ábyrgð á fjöldaflótta fólks frá Afríku. Þeir hefðu skapað fólkinu ömurleg lífskjör með nýlendustjórn sinni.

Mánudaginn 21. janúar sagði Salvini að olíuhagsmunir Frakka í Líbíu kæmu í veg fyrir að þeir vildu stöðugleika í landinu.

Ítalski sendiherrann í París var kallaður í franska utanríkisráðuneytið vegna ásakana Di Maios. Ekki væri fótur fyrir þeim.

 

 

Skoða einnig

Philips Manshaus með verjanda fyrir rétti.

Misheppnuð mosku-árás norsks öfgamanns

Öfgamaðurinn Philip Manshaus (21 árs) sem gerði árás á mosku í Bærum við Osló í …