fbpx
Home / Fréttir / Vandræði innan þýska hersins vegna öfgamennsku gegn farandfólki

Vandræði innan þýska hersins vegna öfgamennsku gegn farandfólki

Urslua von der Leyen varnarmálaráðherra,
Urslua von der Leyen varnarmálaráðherra,

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, hefur aflýst för til Bandaríkjanna vegna hryðjuverka-rannsóknar gegn liðsmanni í þýska hernum, Bundeswehr, sagði í tilkynningu varnarmálaráðuneytisins þriðjudaginn 2. maí.

Þýski ríkissaksóknarinn hefur tekið að sér rannsóknina vegna málsins gegn yfirlautinanti Franco A. vegna ásakana um að hann aðhyllist hægri öfgastefnu og undirbúi hryðjuverk. Þá séu vísbendingar um að hann tengist litlum hópi öfgamanna. Varnarmálaráðuneytið telji fimm menn í hópnum.  Þá er rannsóknin einnig sögð snúast um þjófnað á vopnum auk þess sem krotuð hafi verið tákn, sem brjóti gegn stjórnarskránni, á eignir ríkisins.

Vegna alls þessa beinist þrýstingur að varnarmálaráðherranum og hún sætir gagnrýni vegna þess að trúnaðarbrestur hafi orðið milli óbreyttra hermanna og yfirmanna þeirra.

Í ljósi alls þessa ákvað ráðherrann að aflýsa Bandaríkjaför sinni. Þess í stað ætlar hún miðvikudaginn 3. maí að fara til herstöðvarinnar í Illkirch þar sem yfirlautinant Franco A. starfaði. Fimmtudaginn 4. maí hefur hún boðað rúmlega 100 háttsettum herforingjum til fundar við sig í Berlín til að ræða ástandið sem skapast hefur.

Með vísan til þýskra persónuverndarlaga er nafn hermannsins ekki birt en hann var handtekinn í fyrri viku grunaður um að ætla að leika flóttamann frá Sýrlandi í sambandslöndunum Bæjarlandi og Hessen og nota gervið til hryðjuverka gegn farandfólki.

Von der Leyen hafði skipulagt fundi í Bandaríkjunum miðvikudaginn 3. maí.

 

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …