fbpx
Home / Fréttir / Valdimír Pútín felur sannleikann  

Valdimír Pútín felur sannleikann  

Vladimír Pútín
Vladimír Pútín

 

Hér hefur verið sagt frá nýlegum fyrirmælum frá Vladimír Pútín Rússlandsforseta um að farið skuli með örlög hermanna sem taka þátt í sérstökum aðgerðum á friðartímum sem ríkisleyndarmál. Leiðari í The New York Times þriðjudaginn 2. júní 2015 fjallar um þessa ákvörðun og afleiðingar hennar. Hann birtist hér í lauslegri þýðingu:

 „Í augum Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta er blekkingariðja og þöggun eins mikilvægt tæki í stríði hans í Úkraínu og AK-47 byssa eða flugskeytapallur. Hann heldur fast við þá fullyrðingu að hvorki sé unnt að finna rússneska hermenn né vopn á átakasvæðum í austurhluta landsins þótt NATO, Bandaríkjamenn og sjálfstæðir blaðamenn hafi birt gögn sem sýna annað.

Í síðustu viku bætti Pútín nýrri og einstaklega grimmilegri lykkju við blekkingarvef sinn með því að ákveða að stimpla megi sem hernaðarleyndarmál upplýsingar um dauða eða særða rússneska hermenn sem taka þátt í „sérstökum aðgerðum“ jafnvel þótt til þeirra sé gripið á friðartímum. Fram til þessa hafa fyrirmæli um ríkisleyndarmál aðeins náð til þeirra sem fallið hafa á stríðstímum.

Fyrirmælin magna enn frekar andrúmsloft áróðurs og leyndarhyggju sem hafði fest rækilega rætur á Sovéttímanum og Pútín hefur lagt sig mjög fram um að blása lífi í að nýju. Þau kunna að leiða til handtöku á blaðamönnum og baráttumönnum fyrir mannréttindum sem safna og birta upplýsingar um fallna hermenn og þar með þrengja enn frekar að opnu flæði mikilvægra upplýsinga.

Miskunnarleysi fyrirmælanna birtist vel einstaklingum sem er gert erfiðara en áður að grafast fyrir um dauða eða ófarir nákominna hermanna eins og syrgjandi fjölskyldum er nauðsynlegt til að geta áttað sig á aðstæðum við fjörtjón eða líkamstjón. Þá segja þeir sem gagnrýna ákvörðun rússneskra stjórnvalda að með því að neita að hermenn þeirra hafi verið sendir til átaka geti þau einnig neitað að greiða þeim örorkubætur og ættmennum þeirra dánarbætur eða aðrar bætur.

Pútín óttast greinilega pólitískt bakslag frá Rússum sem kynnu að snúast gegn honum og eyðileggingar stefnu hans fengju þeir að vita hið sanna um Úkraínu. Almennt sýna skoðanakannanir að Pútín nýtur mikils stuðnings Rússa og margir þeirra trúa ekki að her þeirra eigi hlut að máli í Úkraínu.

Þetta kann hins vegar að breytast. Í nýlegri skýrslu sem félagar í samtökum stjórnarandstæðinga í Rússlandi hafa tekið saman segir að hið minnsta 220 rússneskir hermenn hafi fallið við skyldustörf í Úkraínu síðan vorið 2014. Merki eru auk þess um að föllnum fjölgi, þar á meðal særðum hermönnum í sjúkrahúsum svo að ekki sé minnst á nýteknar grafir í kirkjugörðum og fréttir hafa birst í The Times um tugi jarðarfara hermanna á liðnu ári ásamt frásögnum ættingja þeirra.

Suma sérfræðinga grunar að með nýju fyrirmælunum sé Pútín að búa sig undir aðra hernaðaraðgerð í Úkraínu þar sem mannfallið yrði jafnvel enn meira.

Hvað sem líður hinum nýju fyrirmælum hafa Rússar aðgang að netheimum og það er ekki unnt að hindra að fréttir berist jafnvel til smáþorpa. Að Pútín geti treyst á samsekt þegna sinna verður ólíklegra ef æ fleiri ungir karlar verða fluttir heim í líkkistum.“

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …