fbpx
Home / Fréttir / Utanríkisráðherra Þýskalands varar við endalokum Evrópusambandsins

Utanríkisráðherra Þýskalands varar við endalokum Evrópusambandsins

 

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands.
Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, segir í viðtali við Süddeutsche Zeitung þriðjudaginn 25. október að hætta sé á endalokum Evrópusambandsins. Hann segir að undanfarið ár hafi komið berlega í ljós að áratuga gamlar stoðir hafi brostið undan viðteknum skoðunum. „Eilífur friður í álfunni okkar, ekkert kemur í stað Evrópusamstarfsins – þetta stenst einfaldlega ekki lengur,“ segir Steinmeier, þingmaður þýskra jafnaðarmanna (SPD).

„Fjármálakreppan, flótta- og farandmannaflóðið til Evrópu og áfallið vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi hafa valdið hrikalegri ólgu innan Evrópusambandsins,“ segir utanríkisráðherrann. Nú muni lýðskrumarar frá hægri reyna að nýta sér ástandið og höfða til fólks með því að hallmæla ESB

Ráðherrann segir að einarðir talsmenn Evrópusamstarfsins verði að leggja sig fram um að kynna ágæti þess og sækja út fyrir fílabeinsturn atvinnumanna meðal Evrópuvina. „Ef við leggjum okkur ekki lengur fram um að leggja rækt við gildi ESB fara þau í hundana.“

Til að hressa upp á stuðning Þjóðverja við ESB ætlar þýska utanríkisráðuneytið að efna til fundaherferðar um allt Þýskaland um Evrópumál, ekki til að mála allt í björtum litum heldur til að átta sig á í hverju gagnrýnin felst, segir Steinmeier.

Frá október 2016 til mars 2017 efnir þýska utanríkisráðuneytið til funda á um 30 stöðum í Þýskalandi til að ræða við þá sem hafa áhuga á Evrópumálum. Þá eru einnig áform um að efna til svipaðra funda í nágrannalöndum Þýskalands.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …