fbpx
Home / Fréttir / Tillaga um bandarískar hergagnageymslur í Eystrasaltsríkjunum

Tillaga um bandarískar hergagnageymslur í Eystrasaltsríkjunum

MILITARY1-master675
Myndin er tekin í Riga, höfuðborg Lettlands, og sýnir bryndreka á leið til æfinga.

 

Bandaríska varnarmálaráðuneytið býr sig undir að flytja skriðdreka, bryndreka til landhernaðar og önnur þungavopn fyrir allt að 5.000 bandaríska hermenn í Eystrasaltsríkjunum og öðrum löndum í austurhluta Evrópu. Frá þessu er skýrt í The New York Times (NYT) sunnudaginn 14. júní. Segir blaðið að með tillögunni búi Bandaríkjamenn og NATO undir að svara ögrunum af hálfu Rússa.

Verði áformunum hrundið í framkvæmd yrði það í fyrsta sinn frá lokum kalda stríðsins sem Bandaríkjamenn kæmu fyrir hergögnum í nýjum NATO-ríkjum í austurhluta Evrópu. Staðan í álfunni gjörbreyttist árið 2014 vegna innlimunar Rússa á Krímskaga og hernaðarátaka í austurhluta Úkraínu.

NYT segir að innan NATO og í höfuðborgum NATO-landanna vinni menn að gerð nýrra varnaráætlana. Flutningur bandarískra hergagna til nágrannaríka Rússlands yrði stærsta skrefið af hálfu NATO-ríkja til þessa til að sýna vilja Bandaríkjamanna til að verja bandalagsþjóðir sínar við landamæri Rússlands.

Frá 2004 þegar Eystrasaltsríkin gengu í NATO hafa Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra forðast að reisa þar varanlegar vopnageymslur fyrir herafla sinn. Þess í stað hefur verið lögð áhersla á samstarf við Rússa. Verði komið upp slíkum geymslum fyrir 3.000 til 5.000 manna lið yrðu þær svipaðar þeim sem Bandaríkjamenn áttu í Kúvæt eftir að Írakar réðust á landið árið 1990.

Aston B. Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Barack Obama Bandaríkjaforseti hafa ekki samþykkt tillögur herforingjanna um vopnageymslurnar. Þá er talið að innan NATO kunni einhverjir að lýsa efasemdum um áformin þar sem framkvæmd þeirra muni aðeins kalla á frekari vígbúnað af þeirra hálfu. Er talið líklegt að varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna ræði málið að fundi sínum nú í júní.

Í NYT er minnt á að leiðtogar Eystrasaltsríkjanna hafa óskað eftir að á vegum NATO verði fullmannaðar bandarískar herstöðvar í löndum sínum. Tillögurnar sem nú séu til umræðu snúist ekki um það en af hálfu stjórnmálamanna í löndunum sé þeim lýst sem skrefi í rétta átt.

Sérfræðingar Bandaríkjahers hafa kannað aðstæður í austurhluta Evrópu í leit að stöðum fyrir hergagnageymslurnar. Öryggis þeirra yrði gætt af heimamönnum.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …