fbpx
Home / Fréttir / Þýski utanríkisráðherrann vill frekar viðræður við Rússa en heræfingar gegn þeim

Þýski utanríkisráðherrann vill frekar viðræður við Rússa en heræfingar gegn þeim

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands.
Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, segir að nýlegar heræfingar kunni að ýta enn frekar undir spennu í austurhluta Evrópu. Hann hvetur til viðræðna við Rússa áður en leiðtogafundur NATO-ríkjanna hefst í Varsjá snemma í júlí.

Ráðherrann lét orðin falla í samtali við Bild am Sonntag en sagt var frá þeim daginn fyrir útgáfudag blaðsins, laugardaginn 18. júní. Sagði hann heræfingar NATO hafa öfug áhrif á öryggisþróunina í austurhluta Evrópu.

NATO-heræfingin Anakonda-16 hófst 7. júní. Þar er árás Rússa á Pólland sett á svið. Um 31.000 manns taka þátt í æfingunni. Hún stendur í tvær vikur. Um 14.000 bandarískir hermenn taka þátt í æfingunni, 12.000 frá Póllandi og 1.000 frá Bretlandi auk tuga orrustuþotna og skipa ásamt 3.000 farartækjum.

Steinmeier er í þýska Jafnaðarmannaflokknum (SPD) og sagði þörf á meiri viðræðum og samvinnu við Rússa frekar en sýningu á hernaðarmætti.

„Á þessari stundu eigum við ekki að spilla ástandinu enn frekar með vopnaskaki og stríðsöskrum,“ sagði Steinmeier í samtalinu. „Sá sem trúir því að táknræn sýning skriðdreka á austur landamærum bandalagsins stuðli að öryggi hefur rangt fyrir sér. Við ættum að gæta þess að skapa ekki tilefni fyrir endurnýjun gamalla árekstra.“

Steinmeier hvetur til þess að hugað sé að viðræðum og stjórnmálasamskiptum enda sé „stórvarasamt núna að beina allri athygli að hernaðarþættinum og leita lausna sem aðeins taka mið af fælingarmætti“.

Utanríkisráðherrann sagði að kynna verði vilja til að semja á sama tíma og gripið væri til hernaðarlegra gagnráðstafana og NATO ætti að búa sig undir að „endurnýja viðræður um gildi afvopnunarinnar og eftirlits með vígbúnaði í þágu öryggis í Evrópu“.

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …