fbpx
Home / Fréttir / Þýskaland: Alvarleg viðvörun til Merkel í þremur sambandslöndum – AfD-flokkurinn sækir í sig veðrið

Þýskaland: Alvarleg viðvörun til Merkel í þremur sambandslöndum – AfD-flokkurinn sækir í sig veðrið

 

Kosningaspjöldum AfD var beint gegn Angelu Merkel.
Kosningaspjöldum AfD var beint gegn Angelu Merkel.

Stóru flokkarnir tveir í Þýskalandi, kristilegir demókratar (CDU) og jafnaðarmenn (SPD), sem mynda ríkisstjórn landsins töpuðu verulega í kosningum til þriggja sambandslandsþinga sunnudaginn 13. mars. Kosningabaráttan snerist að verulegu leyti um afstöðuna til útlendinga og stefnu Angelu Merkel kanslara til komu flótta- og farandfólks til landsins. Þótt umstalsverð breyting hafi orðið á fylgi einstakra flokka með miklum framangi Alternative für Deutschland (AfD) er ekki talið að skipt verði um forsætisráðherra í sambandslöndunum þremur.

AfD-flokkurinn var stofnaður á árinu 2013. Að stofnun hans stóðu einkum áhrifamenn sem gagnrýndu evru-samstarfið. Sumir í þeirra röðum voru hikandi við að ýta nýjum flokki úr vör af ótta við að inn í hann hópaðist fólk sem hefði of róttækar skoðanir til hægri við CDU. Sú hefur orðið reyndin og eftir að Merkel ákvað að opna Þýskaland fyrir straumi flótta- og farandfólks snerist AfD-flokkurinn æ harðar gegn þeirri stefnu. Hann uppsker nú mikið fylgi vegna þeirrar stefnu.

Þótt Angela Merkel hafi veikari stöðu en áður eftir úrslitin á sunnudag er talið að hún standi höggið af sér innan flokksins þar sem enginn ógnar henni og enn nýtur hún stuðnings meirihluta manna í könnunum. Öðru máli gegnir um Gabriel Sigmar, formann SPD og varakanslara. Hann stendur höllum fæti og kann honum að verða ýtt til hliðar fyrr en seinna.

Í Sachsen-Anhalt fékk CDU 29,8% (-2,7%), AfD 24,2% (+24,2%), Linke (gamlir kommúnistar) fengu 16,3% (-7,4%) og SPD 10,6% (-10,9%).

Í Baden-Württemberg fengu græningjar 30,3% (+6,1%), CDU 27% (-12%), AfD 15,1% (+15,1%), SPD 12,7% (-10,4%) og frjálsir demókratar FDP 8,3%  (+3%).

Í Rheinland-Pfalz fékk SPD 36,2% (+0,5%), CDU 31,8% (-3,4%) AfD 12,6% (+12,6%), FDP 6,2% (+2%) og græningjar 5,3% (-10,1%).

Frauke Petry, formaður AfD, sagði við fréttastofuna Deutsche Welle: „Almenningur væntir ekki lengur neinna lausna frá stóru flokkunum, AfD hefur hins vegar kynnt lausnir á mörgum sviðum síðan 2013.“

Forsætisráðherrar einstakra sambandslanda og vinsældir þeirra ráða því hvaða flokkar eru stærstir í hverju landanna þriggja. Fylgisaukning græníngja í Baden-Württenberg vekur sérstaka athygli en forsætisráðherra þeirra þar, Wilfried Kretschmann, nýtur mikils persónulegs fylgis jafnvel þótt hann fylgi stefnu Merkel í útlendingamálum.

Sven Afhüppe, aðalritstjóri Handelsblatt í Þýskalandi, sagði mánudaginn 14. mars í blaðinu að þeir sem hefðu notað atkvæðisréttinn til að mótmæla eða nýttu hann alls ekki hefðu sigrað í kosningunum. Gömlu flokkarnir ættu að læra af þessu.

Ritstjórinn telur að Merkel haldi velli og enginn muni krefjast afsagnar Sigmars Gabriels. CDU og SPD verði þó að líta á þetta sem áminningu og hvatningu til dáða. Viðvörun hafi borist frá samfélagi þar sem margt sé mikilli hreyfingu og vonbrigði ráði afstöðunni til stjórnmálamanna. Það sé einfaldlega ekki í boði að láta eins og ekkert hafi í skorist og bjóða meira af því sama.

Berthold Kohler, einn útgefanda Frankfurter Allgemeine Zeitung, segir um úrslitin: „Úrslitin munu vonandi duga til að vekja ráðsettu flokkana og gera þeim ljóst að mótmæla-flokkar hverfa ekki jafn auðveldlega og þeir hafa gert í áranna rás.“

Süddeutsche Zeitung segir úrslit kosninganna breyta Þýskalandi: „Gömlu aðferðirnar sem hafa mótað pólitískt landslag sambandslýðveldisins áratugum saman duga ekki lengur. Um það sem gengið var að sem vísu ríkir nú óvissa. Það sem áður var talið ógerlegt er nú gerlegt.“

Kosningaþátttakan var töluvert meiri en áður, 72% í Baden Württenberg í stað 66,3% fyrir fjórum árum, 63% nú í Sachsen-Anhalt í stað 51,2%, og 71,5% í Rheinland-Pfalz í stað 61,8%

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …