fbpx
Home / Fréttir / Þungvopnuð rússnesk freigáta við fiskveiðieftirlit í norskri lögsögu

Þungvopnuð rússnesk freigáta við fiskveiðieftirlit í norskri lögsögu

Freigátan Admiral Kasatonov
Freigátan Admiral Kasatonov

Rússneski Norðurflotinn hefur í fyrsta sinn tekið að sér að þjóna rússneskum fiskiskipum innan efnahagslögsögu Noregs. Þungvopnuð freigáta, Admiral Kasatonov, ásamt stóru dráttarskipi, Nikolai Tsjiker, og olíuskipi, Vjazama, gegna þessu hlutverki. Skipin sigldu úr suðri inn á Noregshaf eftir að hafa verið við störf á fjarlægum slóðum í leiðangri sem hófst í desember 2020.

Að morgni sunnudags 11. apríl voru skipin fyrir suðvestan Ørland-flugherstöðina, heimavöll norsku F-35 orrustuþotnanna.

Upplýsingadeild Norðurflotans sendi frá sér tilkynningu laugardaginn 10. apríl um ferðir skipanna. Í tilkynningunni sagði að áhafnir þeirra mundu í nokkra daga æfa kafbátaleit samhliða því sem þær gættu öryggis rússneskra sjómanna við fiskveiðar á svæðinu. Þá tækju skipin þátt í ýmsum æfingum á Barentshafi áður en þau héldu til hafnar á Kólaskaga.

Mánudaginn 12. apríl stefndu skipin norður með strönd Noregs. Í frétt Barents Observer um ferðir skipanna segir að herskip í Norðurflota Rússa athafni sig oft undan strönd Noregs. Áhafnir þeirra hafi meðal annars æft flugskeytaskot fyrir norðan og vestan Noreg. Þetta sé hins vegar í fyrsta skipti sem herskipum hafi opinberlega verið falið að gæta öryggis fiskiskipa og áhafna þeirra í norskri efnahagslögsögu.

Minnt er á að stjórnvöld í Moskvu hafi látið í ljós óánægju ef rússneskir togarar séu teknir vegna gruns um fiskveiðibrot í norskri lögsögu.

Árið 2002 sendu Rússar tundurspillinn Severomorsk inn á fiskverndarsvæðið við Svalbarða sem á þeim tíma var ekki viðurkennt af stjórn Rússlands. Norsk yfirvöld lýstu vanþóknun á ferð skipsins en Rússar sögðu þetta reglubundið eftirlit með fiskiskipum undir rússneskum fána.

Rússar og Norðmenn deila með sér veiðiheimildum í norðri, t.d. á þorski. Norska landhelgisgæslan annast eftirlit innan norsku efnahagslögsögunnar og einnig fiskveiðilögsögunnar umhverfis Jan Mayen.

Um borð í Admiral Kasatonov eru stýriflaugar af Oniks- og Kalibr-gerð auk tundurskeyta gegn kafbátum. Freigátan er annað skipið af nýrri tegund í rússneska flotanum og var hún tekin í notkun í júlí 2020. Heimahöfn freigátunnar er í Severomorsk-flotastöðinni á Kólaskaga.

Freigátan fór frá Severomorsk 30. desember 2020 og hefur verið á Atlantshafi og Miðjarðarhafi. Hún hefur farið í vináttuheimsókn til hafna í Tyrklandi, Sýrlandi, Kýpur, Grikklandi, Egyptalandi og Alsír.

 

 

 

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …