Home / Fréttir / Þrjár flotadeildir bandarískra flugmóðurskipa á Vestur-Kyrrahafi

Þrjár flotadeildir bandarískra flugmóðurskipa á Vestur-Kyrrahafi

Flugmóður- og fylgdarskip frá fimm þjóðum.
Flugmóður- og fylgdarskip frá fimm þjóðum.

Flotastjórn Bandaríkjanna heldur um þessar mundir úti þremur flugmóðurskipum og fylgdarskipum á vesturhluta Kyrrahafs í fyrsta sinn síðan árið 2011. Spenna er mikil á þessu svæði vegna aðgerða stjórnar Norður-Kóreu. Þá verður Donald Trump Bandaríkjaforseti á ferð um Asíu í næstu viku.

Flotastjórnin segir að um þessar mundir sé flugmóðurskipið Nimitz og fylgdarskip þess, þar á meðal eldflaugaskip, á siglingu um Indlandshaf á leið til Kyrrahafs eftir að hafa verið við Mið-Austurlönd. Flugmóðurskipið Theodore Roosevelt og sveit skipa með því, þar á meðal beitiskip og þrír tundurspillar, sigldu inn á Vestur-Kyrrahaf 23. október en var var flugmóðurskipið Ronald Reagan fyrir.

Ferðir flugmóðurskipanna eru hluti af miklum umsvifum bandaríska flotans á þessum slóðum. Frá skipunum í flotadeildum flugmóðurskipanna má skjóta Tomahawk- stýriflaugum.

Flotastjórnin tilkynnti 13. október að kafbáturinn Michigan, einn fjögurra bandarískra kafbáta sem getur flutt að allt að 66 sérsveitarmenn, sem Bandaríkjamenn kalla Navy SEAL, auk 154 Tomahawk-stýriflauga væri í hafnarborginni Busan í Suður-Kóreu.

Bandaríska flotastjórnin segir að ekki sé nýtt að hún sendi flugmóðurskip og fylgdarskip þeirra til Vestur-Kyrrahafs og Indlandshafs. Þar sé um vel undirbúnar ferðir að ræða og aðdragandi þeirra sé langur. Ekkert sé óvenjulegt við að flotadeildirnar hittist á siglingu þegar þær fara af einu svæði á annað.

Bloomberg-fréttastofan segir þó óvenjulegt að þrjár flotadeildir séu á æfingu á Vestur-Kyrrahafi samtímis.

 

 

Skoða einnig

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB.

Harðar deilur Donalds Tusks og pólsku ríkisstjórnarinnar

Pólska ríkisstjórnin hefur sakað Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB og fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, um að …