fbpx
Home / Fréttir / Þriðjungur Þjóðverja óttast stríðsátök við Rússa

Þriðjungur Þjóðverja óttast stríðsátök við Rússa

Hersýning á Rauða torginu í Moskvu.
Hersýning á Rauða torginu í Moskvu.

 

Þriðjungur Þjóðverja óttast að til stríðsátaka komi við Rússa. Þetta kemur fram í könnun á vegum Forsa fyrir vikublaðið Stern. Stuðningsmenn flokksins AfD óttast slík átök mest eða 63% svarenda. Alls 64% telja ástæðulaust að hræðast hernaðarátök við Rússa. Meirihluti svarenda, 51% telja samskiptin við Rússa hins vegar erfið, 41% segja þau vond en aðeins 6% góð.

Oliver Kühn skrifar miðvikudaginn 26. október um niðurstöðu könnunarinnar í Frankfurter Allgemeine Zeitung og minnir á deiluna við Rússa vegna Úkraínu. Þýska ríkisstjórnin kemur að lausn hennar meðal annars í viðræðum við Valdimír Pútín Rússlandsforseta. Í Forsa-könnuninni lýsa 84% svarenda stuðningi við að Angela Merkel Þýskalandskanslari leiti að friðsamlegri lausn í Úkraínu í samtölum við Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Aðeins 14% telja slík samtöl tilgangslaus. Stuðningurinn við þessa viðleitni Merkel er yfirgnæfandi í öllum þýsku stjórnmálaflokkunum: 95% meðal græningja, 92% meðal kjósenda Linke, gamla kommúnistaflokksins, 87% kjósenda AfD (Alternative für Deutschland) svo að stjórnarandstöðuflokkarnir séu nefndir.

Þjóðverjar taka þátt í aðgerðum NATO til að efla öryggiskennd íbúa Eystrasaltsríkjanna þriggja og Póllands gagnvart Rússum og munu stjórna herdeild sem send verður undir merkjum NATO til Litháens.

Í Þýskalandi dró það ekki úr áhyggjum manna vegna hernaðarumsvifa Rússa að þeir fluttu Iskander-skotflaugar til hólmlendunnar Kaliningrad. Með flaugunum má skjóta kjarnorkusprengjum til staða í allt að 400 km fjarlægð. Þá líta menn á siglingu flugmóðurskipsins Admirals Kuznetsovs í áttina að Sýrlandi sem tákn um að Rússum sé kært að sýna vald sitt. Rússar féllu frá ósk um að fylla skipið af eldsneyti í spænsku hólmlendunni Ceuta á strönd Marokkó eftir að málið var rætt á fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna í Brussel.

Þá segir þýski blaðamaðurinn að Rússar telji sig umkringda og þar leiði NATO Vesturlönd með óvinveittri stefnu sinni. Rússnesk stjórnvöld hafi mótmælt viðveru bandarískra landgönguliða í Noregi en frá henni hefði verið greint mánudaginn 24. október.  Rússneska sendiráðið í Osló hafi sent frá sér tilkynningu um að viðvera hermannanna mundi „örugglega ekki bæta“ stöðu öryggismála í Norður-Evrópu. Opinber skýring á komu bandarísku landgönguliðanna er að þeir séu til þjálfunar í Noregi. Þegar Norðmenn urðu stofnaðilar NATO árið 1949 var Sovétmönnum lofað að NATO-hermenn mundu ekki hafa fasta viðveru í Noregi.

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …