fbpx
Home / Fréttir / Þjóðverjar senda liðsafla gegn Daesh

Þjóðverjar senda liðsafla gegn Daesh

Þýska freigátan Augsburg verður flugmóðurskipinu Charles de Gaulle til halds og trausts á Miðjarðarhafi.
Þýska freigátan Augsburg verður flugmóðurskipinu Charles de Gaulle til halds og trausts á Miðjarðarhafi.

Þýska þingið samþykkti að morgni föstudags 4. desember að allt að 1.200 þýskir hermenn yrðu sendir til þátttöku í stríðinu gegn Daesh (Ríki íslams) í Sýrlandi. Þjóðverjar hafa aldrei fyrr sent jafnmarga hermenn til þátttöku í stríðsaðgerðum.

nEnginb þýsku hermannanna verður sendur inn fyrir landamæri Sýrlands, ekki er heldur gert ráð fyrir að þeir skjóti á liðsmenn Daesh.

Á vefsíðu þýska blaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung, FAZ.NET, segir að þýsku hermennirnir muni ekki gegna sama hlutverki og hermenn frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Rússlandi og Tyrklandi sem geri loftárásir á Daesh. Talsmaður þýska varnarmálaráðuneytisins sagði við FAZ.NET: „Ekki er um neina þátttöku í bardögum að ræða.“

Þýska freigátan Augsburg hefur þegar verið send til Miðjarðarhafs en verkefni hennar verður að tryggja öryggi franska flugmóðurskipsins Charles de Gaulle sem er nú undan strönd Sýrlands til árása á Daesh. Á FAZ.NET er bent á að Daesh á ekki land að Miðjarðarhafi og ræður ekki yfir neinum skipum. Það sé því í raun leyndarmál hver ógni flugmóðurskipinu.

Þjóðverjar senda einnig eldsneytisvél af gerðinni Airbus A 310 MRT á vettvang. Hún verður notuð til að fylla orrustuþotur og sprengjuvélar eldsneyti í flughæð frá 1.500 til 9.000 m á 370 til 560 km hraða á klst. Þetta gerist því í þeirri hæð að vélunum verður ekki ógnað af hryðjuverkamönnum.

Á FAZ.NET er ekki talið að menn Daesh geti ógnað þýsku Tornado-þotunum sem sendar verða á vettvang til upplýsingaöflunar. Þær verði í 3.000 til 5.000 metra hæð og því ógjörningur að ná til þeirra með skotvopnum Daesh, hvort heldur byssum eða sprengjuvörpum.

Blaðamaður FAZ.NET telur að þýsku hermönnunum muni helst stafa hætta af bilunum í Tornado-þotunum. Neyðist þeir til að yfirgefa vélarnar af einhverri ástæðu og kasta sér í fallhlíf til jarðar á yfirráðasvæði Daesh kunni sömu örlög að bíða þeirra og jórdanska flugmannsins sem lenti í höndum Daesh eftir að vél hans bilaði. Hann var síðan brenndur á báli.

Niðurstaðan á FAZ.NET er að verkefni þýska hersins í aðgerðunum gegn Daesh sé í raun ekki lífshættulegt fyrir þýsku hermennina. Þeir búi hins vegar við sömu ógn og allir í flugherstöð NATO í tyrkneska bænum Incirlik: sjálfsmorðssveitir Daesh munu reyna að granda þar sem flestum. Eftir árásina í París hinn 13. nóvember sé þó ljóst að sambærileg hætta steðji að Þjóðverjum þótt þeir séu í heimalandi sínu – enginn sé lengur óhultur fyrir hryðjuverkamönnum.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …