fbpx
Home / Fréttir / Þjóðverjar leggja nýja rækt við smáríki innan NATO

Þjóðverjar leggja nýja rækt við smáríki innan NATO

Urslua von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, í opinberri heimsókn í Prag.
Urslua von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, í opinberri heimsókn í Prag.

Athygli vekur að Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, hefur verið í opinberum heimsóknum Rúmeníu og Tékklandi undanfarna daga. Er meira en áratugur frá því að þýskur varnarmálaráðherra sótti löndin síðast heim. Nú dregur för ráðherrans fram áhyggjur ríkisstjórna landanna af þróun mála í Úkraínu.

Í frétt þýsku fréttastofunnar DW segir að varnarmálaráðherrar NATO-ríkja láti almennt nægja að hittast á reglulegum fundum innan vébanda bandalagsins.  „Borgarastríðið í Úkraínu hefur hins vegar breytt öllu,“ segir DW. Margt þurfi að ræða andspænis hugsanlegri árás Rússa sem talið er að mundi einkum ógna Mið- og Austur-Evrópuríkjunum í NATO. Unnið er að undirbúningi sameiginlegra æfinga, liðsafla er skipað í fylkingar og látið er reyna á fælingarmarkmið.

Smátt og smátt hefur þetta ferli teygt sig til landa eins og Rúmeníu sem á löng sameiginleg landamæri með Úkraínu og einnig land að Svartahafi sem skiptir miklu hernaðarlega. Moldóva, nágrannaríki Rúmeníu, er jafnframt mikilvægt í þessu tilliti. Moldóvar eiga mikið undir Rúmenum og hafa auk þess nálgast Evrópusambandið. Stjórnvöld Moldóvu glíma heim fyrir við mikinn vanda vegna átaka við aðskilnaðarsinna í Trans-Dniester lýðveldinu sem halla sér að Rússum.

Eftir að hafa heimsótt Pólland og Eystrasaltsríkin hélt Ursula von der Leyen varnarmálaráðherra til Búkarest, höfuðborgar Rúmeníu, þar sem sjá má borða til stuðnings NATO fyrir framan opinberar byggingar. Á leið sinni til blaðamannafundarins gekk þýski ráðherrann fram hjá heiðurssal rúmenska hersins – þar á vegg má lesa þessa áletrun: „Traustur bandamaður“.

Á blaðamannafundinum lagði Von der Leyen í upphafi áherslu á að rúmenskir og þýskir hermenn æfðu saman „enda ekkert sjálfsagðara“ og hún hrósaði rúmenskum starfsbróður sínum, Mircea Dusa, fyrir hve hratt Rúmenar vinni að framkvæmd ákvarðana leiðtogafundar NATO í Wales í september 2014. Á fundinum var meðal annars ákveðið að koma á fót herstjórnarmiðstöð í Rúmeníu.

Í Prag ræddi þýski varnarmálaráðherrann um skipulag hraðliðs NATO en fyrsta stóræfing þess samkvæmt nýju skipulagi verður í Póllandi eftir nokkra daga.  Martin Stropnicky, varnarmálaráðherra Tékklands, sagði að þar hefðu menn í mörg ár beðið eftir að fá þýskan varnarmálaráðherra í heimsókn. Nú væri sannarlega tímabært að auka samstarf um öryggismál. Tók þýski ráðherrann undir það.

Þýski baðamaður DW segir mikilvægustu niðurstöðu af heimsóknum von der Leyen þá að þar sem sameiginlegar varnir bandalagsríkjanna séu nú að nýju orðnar kjarnaverkefni NATO sé vegur „smærri“ bandalagsþjóða að aukast á vettvangi þess.

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …