fbpx
Home / Fréttir / Þing Eistlands samþykkir Magnitskíj-lög gegn mannréttindaníðingum

Þing Eistlands samþykkir Magnitskíj-lög gegn mannréttindaníðingum

Bill Browder
Bill Browder

Þing Eistlands samþykkti einum rómi fimmtudaginn 8. desember að banna útlendingum sem gerst hafa sekir um mannréttindabrot að koma til Eistlands. Lagafrumvarpið var samið að fordæmi laga sem Bandaríkjaþing samþykkti á sínum tíma og kennd eru við rússneska lögfræðinginn og endurskoðandann Sergei Magnitskíj og mál hans.

Í nýju lögunum er eistneskum yfirvöldum veitt heimild til að banna þeim að koma til landsins ef víst er eða talin er góð ástæða til að ætla að þeir hafi átt hlutdeild í verknaði sem leiddi til „dauða eða alvarlegs heilsubrests“ einhvers eða „marklauss dóms fyrir refsivert brot í pólitískum tilgangi“.

Sergei Magnitskíj dó árið 2009 við óljósar aðstæður í fangelsi eftir að hafa afhjúpað skatt- og fjársvik á æðstu stöðum í Rússlandi.

Eerik-Niiles Kross, þingmaður eistneska Umbótaflokksins og fyrrv. forstjóri leyniþjónustu Eistlands, flutti lagafrumvarpið. „Við fáum nú loksins heimild til að setja bann við komu fólks af því tagi sem barði líftóruna úr Magnitskíj í fangelsi og pyntaði Nadíju Savstjenkó.“

Sú síðarnefnda er fyrrv. flugmaður í Úkraínuher. Hún var handtekin í Úkraínu og sótt til saka í Rússlandi. Henni var sleppt og hún send til baka í maí 2016.

Magnitskíj starfaði fyrir breska kaupsýslumanninn Bill Browder sem kom hingað til lands fyrir ári og kynnti bók sína Eftirlýstur sem snýst um örlög Magnitskíjs. Browder er eftirlýstur af rússneskum yfirvöldum. Hann berst nú fyrir auknum mannréttindum í Rússlandi og telur markmiði sínu til framdráttar að sett séu lög á borð við þau sem nú hafa verið samþykkt í Eistlandi. Hann hvatti til slíkrar lagasetningar í Bandaríkjunum og hlaut áheyrn. Honum hefur ekki enn tekist að fá ESB-þingið til að setja slík lög.

Sama dag og lögin voru samþykkt í Eistlandi samþykkti öldungadeild Bandaríkjaþings að framlengja gildistíma bandarísku Magnitskíj-laganna um eitt ár.

Í breska þinginu verða brátt greidd atkvæði um  ný lög sem kennd eru við Magnitskíj. Þar er gert ráð fyrir að yfirvöld hafi heimild til að gera upptækar eignir útlendinga í Bretlandi, til dæmis glæsihús, hafi þeir gerst sekir um mannréttindabrot.

Magnitskíj komst að því að háttsettir rússneskir embættismenn og rússneska mafían sveik út 230 milljónir dollara af skattfé rússnesks almennings og þvoði peningana víðsvegar innan ESB.

Panamaskjölin sýndu síðan að eitthvað af þessu fé rann til tónlistarmannsins Sergeis Roldugins, gamals félaga Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.

Fyrir tilstilli Browders hafa milljónir evra verið frystar í evrópskum bönkum með vísan til þess að um illa fengið fé sé að ræða.

Rússar hafa ráðið hagsmunamiðlara og almanntengla til að starfa fyrir sig í Brussel og Washington og breiða út þann boðskap að Browder hafi stolið fénu og síðan skáldað alla söguna um Magnitskíj.

 

Heimild: EUobserver

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …