fbpx
Home / Fréttir / Tengsl milli hryðjuverkaárása í París og Brussel staðfest af belgískum yfirvöldum

Tengsl milli hryðjuverkaárása í París og Brussel staðfest af belgískum yfirvöldum

 

Lögregla við leit í Schaerbeek-hverfinu við Brussel.
Lögregla við leit í Schaerbeek-hverfinu við Brussel.

Belgíska lögreglan sagði föstudaginn 25. mars að annar mannanna tveggja sem sprengdi sig í loft upp á Brussel-flugvelli þriðjudaginn 22. mars hafi verið sprengjugerðarmaður sem vann að gerð tveggja sjálfsmorðsvesta sem notuð voru í árásunum í París 13. nóvember 2015 sem urðu 130 manns að aldurtila.

Sprengjugerðarmaðurinn hét Najim Laachraoui, 24 ára belgískur ríkisborgari, sem fór til Sýrlands í febrúar 2013. Hann er sagður hafa verið í vitorði með Salah Abdeslam, 26 ára, sem var handtekinn í Brussel föstudaginn 18. mars eftir að hafa verið leitað í fjóra mánuði. Hann er sakaður um aðild að hryðjuverkinu í París og talinn hinn eini á lífi sem tók beinan þátt í framkvæmd þess. Handtaka hans virðist hafa flýtt ákvörðun um að hrinda í framkvæmd árásunum á Brussel.

Lögreglan leitaði 10. desember 2015 í íbúð við Rue Henri Bergé í Schaerbeek, úthverfi Brussel. Þar fann hún tæki til sprengjugerðar, fingraför Abdeslams og lífsýni Laachraouis. Mánudaginn 21. mars, þremur dögum eftir að Abdeslam var handtekinn í Molenbeek-hverfinu í Brussel, óskaði lögreglan eftir aðstoð við að finna Laachraoui.

Þau voru of seint á ferðinni. Klukkan 07.58 að morgni þriðjudags 22. mars sprengdi hann sig í loft upp á Brussel-flugvelli ásamt öðrum sprengjumanni, Imbrahim El Bakraoui, 29 ára. Fjölmiðlar skýrðu fljótlega frá dauða Laachraouis en belgísk yfirvöld vildu ekki staðfesta neitt fyrr en lífsýni hefðu verið rannsökuð. Föstudaginn 25. mars lá ljóst fyrir að hann skapaði lykiltengsl milli árásanna í París og Brussel.

Föstudaginn 25. mars skýrði belgíski ríkissaksóknarinn einnig frá því að þrír menn hefðu verið handteknir í Brussel þann sama dag. Þá náði rannsóknin vegna árásanna í Brussel til Frakklands, Þýskalands, Spánar og Hollands.

Hér á síðunni hefur þegar verið sagt frá því að franska lögreglan handtók Reda Kriket að kvöldi fimmtudags 24. mars. Hann hafði verið dæmdur í júlí 2015 í Brussel fyrir aðild að hryðjuverkahópi ásamt með Abdelhamid Abaaoud sem stjórnaði árásinni í París.

Þremenningarnir sem voru teknir höndum í Brussel 25. mars eru allir taldir tengjast Kriket.

Að kvöldi fimmtudags 24. mars handtók þýska lögreglan í Düsseldorf 28 ára gamlan Þjóðverja sem yfirvöld vissu að væri í tengslum við íslamska öfgahyggjumenn í Nordrhein-Westphalia, fjölmennasta sambandslandi Þýskalands. Talsmaður saksóknara sagði að lögregla vildi hindra að hann flýði til Sýrlands.

Tyrkir vísuðu Þjóðverjanum úr landi sumarið 2015 til Hollands ásamt með Khalid El-Bakraoui, 27 ára Belga, sem sprengdi sig í loft upp í lestarstöð í Brussel 22. mars.  Þýska lögreglan veit ekki hvort mennirnir þekktust eða hve mikið en fyrr í þessum mánuði var Þjóðverjinn dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir þjófnað, beið hann eftir að afplánun hæfist.

Frá því var skýrt í þýskum fjölmiðlum föstudaginn 25. mars að miðvikudaginn 23. mars hefði lögreglan í Giessen í Hessen í vesturhluta Þýskalands handtekið 28 ára gamlan mann frá Marokkó við venjubundið skilríkja-eftirlit. Hann er á sakaskrá í Þýskalandi og Ítalíu og á honum fundust gögn sem sýndu að hann hefði verið lagður inn á sjúkrahús með skýringarlaust sár föstudaginn 18. mars, sama dag og Abdeslam var handtekinn í Brussel.

Við nánari athugun vaknaði grunur hjá lögreglunni um að ef til væru tengsl á milli mannsins og árásarmannanna í Brussel. Má þar til dæmis nefnda sms-boð á síma hans með franska orðinu „fin“ eða „endir“. ARD-sjónvarpsstöðin segir að hann hafi fengið þau þriðjudaginn 22. mars skömmu fyrir árásirnar í Brussel. Der Spiegel segir að í öðrum skilaboðum sé að finna nafnið Khalid el-Bakraoui.

Fréttastofur á Spáni og í Hollandi sögðu evrópskar leyniþjónustur leita að Naïm al-Hamed 28 ára gömlum Sýrlendingi vegna rannsóknar á Brussel-árásunum. Hann er sagður tengjast Laachraoui, Khalid el-Bakraoui og þriðja manni sem liggur undir grun, Mohamed Abrini.

Hér á síðunni hefur verið sagt frá því að Jan Jambon innanríkisráðherra og Koen Geens dómsmálaráðherra buðust fimmtudaginn 24. mars til að segja af sér embættum sínum vegna gagnrýni á klúður yfirvalda við meðferð mála vegna hryðjuverkamanna. Forsætisráðherrann hafnaði lausnarbeiðni þeirra.

Jambon og Geens sátu síðdegis föstudaginn 25. mars fyrir svörum þingnefndar. Þeir gerðu grein fyrir gangi mála og einnig sagði Geens að Salah Abdeslam hefði hætt að svara spurningum belgísku lögreglunnar eftir hryðjuverkin í Brussel. Salah Abdeslam andmælti við handtöku sína að verða framseldur til Frakklands en hann hefur síðan skipt um skoðun og vill verða sendur þangað.

Heimild: The New York Times

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …