fbpx
Home / Fréttir / Svíar stórefla varnir sínar

Svíar stórefla varnir sínar

Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svía.
Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svía.

Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, birti 11. janúar grein á bandarísku vefsíðunni DefenseNews þar sem hann segir að vegna ögrunar Rússa við skipan öryggismála í Evrópu og versnandi ástands á Eystrasalti verði Svíar enn að styrkja varnir sínar.

Hann segir að áfram fylgi sænska ríkisstjórnin tvíþættri stefn í öryggis- og varnarmálum: að styrkja eigin varnir á heimavelli og dýpka alþjóðlegt varnarsamstarf.

Ráðherrann fagnar ákvörðun um aukið fjármagn til að framkvæma stefnuna. Á árunum 2016 til 2020 hefðu orðið þáttaskil í þróun sænskra hernaðarútgjalda, fjármagni hefði verið veitt til að efla sænska herinn í fyrsta sinn eftir áralangt aðgerðaleysi fyrri ríkisstjórna. Nú hafi næsta skref verið stigið með frekari hækkun útgjalda, úr 6,2 milljörðum dollara árið 2020 í 9,2 milljarða árið 2025. Þetta sé mesta hækkun útgjalda til hersins í 70 ár. „Þetta sendir ekki aðeins skýr skilaboð til sænsku þjóðarinnar og samstarfsþjóða okkar heldur sýnir einnig að við lítum stöðu öryggismála alvarlegum augum.“

Í greininni gerir ráðherrann grein fyrir þróun heraflans, meðal annars að í honum verði 90.000 menn árið 2030 miðað við 60.000 um þessar mundir. Fast herlið verði að nýju til varnar höfninni í Gautaborg. Flugherinn verði efldur til að verja Stokkhólm. Keypt verði ný vopn og komið fyrir bandarískum Patriot-loftvarnakerfum. Varnir Gotlands verði efldar. Nýir kafbátar bætist við sænska flotann og einnig korvettur. Þá verður flugherinn efldur.

Þá verður lögð áhersla á að endurreisa sænsku almannavarnirnar til að tryggja að daglegt líf geti dafnað á tímum áfalla og átaka. Undir merkjum „total forsvar“ verða hernaðarlegir kraftar og borgarlegir nýttir til sameiginlegs átaks.

Ráðherrann nefnir einnig aukna hættu af fjölþátta (e. hybrid) aðgerðum gegn Svíum. Vegna þeirra hafi sænska ríkisstjórnin nýlega ákveðið að koma á fót nýrri netöryggismiðstöð og þá verði opinberri stofnun til að tryggja sálrænar varnir komið á fót árið 2022.

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …