fbpx
Home / Fréttir / Svíar gera varnarsamning við Dani – undirbúa gistilandssamning við NATO

Svíar gera varnarsamning við Dani – undirbúa gistilandssamning við NATO

Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra.
Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra.

Sameiginleg grein forsætisráðherra Finnlands og Svíþjóðar, Juha Sipilä og Stefans Löfvens, sem sagt var frá hér á síðunni í gær er túlkuð á þann veg í Finnlandi að augljóst sé að aðild landsins að NATO sé ekki á dagskrá.

Í sænska blaðinu Dagens Nyheter birtist frétt mánudaginn 11. janúar um að Svíar og Danir muni ganga frá varnarsamningi fimmtudaginn 14. janúar. Í honum felist gagnkvæm afnot af flugvöllum og höfnum á friðartímum auk skipta á upplýsingum.

Forsætisráðherrarnir birtu grein sína sama dag og árleg ráðstefna, Rikskonferensen, hófst á vegum sænsku samtakanna Folk och Försvar. Ráðstefnuna sækja um 350 manns, forystumenn á sviði varnar- og öryggismála  auk ungs fólks. Þar ræða menn saman á fjallahóteli í 3 daga og eru fluttar 50 til 60 ræður.

Hvorugur forsætisráðherranna sótti ráðstefnuna að þessu sinni. Margot Wallström, utanríkisráðherra Svía, sagði grein ráðherranna svar til þeirra í Finnlandi sem óttuðust að Svíar ætluðu á eigin forsendum í NATO. Í finnska Hufvudstadsbladet er vitnað í sænska utanríkisráðherrann sem sagði: „Gengju Svíar í NATO mundi það ekki draga úr spennu á okkar svæði en á því þurfum við mest að halda.“

Hvað sem líður stöðu Svía utan NATO boðar Dagens Nyheter mánudaginn 11. janúar að þeir ætli að semja um varnarsamstarf við NATO-þjóðina Dani. Í ræðu á ráðstefnu Folk og försvas sagði Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, að tilgangur samningsins við Dani væri að auka aðgerðasvigrúm herflugvéla og herskipa Svía á friðartímum. Þá yrði skipst á hernaðarlegum upplýsingum um stöðu mála á Eystrasalti og komið á öruggu samskiptakerfi.

Svíar hafa gert svipaðan samning við Finna. Í ræðu sinni lagði sænski varnarmálaráðherrann áherslu á nauðsyn þess að dýpka varnarmálasamstarf við önnur ríki og NATO.

„Næsta mikilvæga skref, í samræmi við varnarmálaályktun þingsins, er að ríkisstjórnin undirbýr tillögu að svonefndum gistilandssamningi við NATO,“ sagði Hultqvist. Samningurinn fæli í sér að auðveldara yrði að skipuleggja og taka þátt í margvíslegum æfingum sem herir annarra þjóða stunduðu í Svíþjóð. Þá fæli samningurinn einnig í sér til hvaða ráðstafana skyldi gripið reyndist óhjákvæmilegt að taka á móti erlendum stuðningi, hernaðarlegum eða borgaralegum, á hættutímum.

Ráðherrann sagði nauðsynlegt að vara menn við að trúa alls konar rangfærslum sem hampað væri vegna þessa fyrirhugaða samnings við NATO. Sagt væri að í krafti hans yrðu Svíar neyddir til að samþykkja að kjarnorkuvopn yrðu flutt til Svíþjóðar og sætta sig við varanlegar herstöðvar undir merkjum NATO.

„Ég vil einfaldlega segja skýrt og afdráttarlaust að þetta er lygi og hreinn uppspuni,“ sagði ráðherrann.

Hann lagði áherslu á Svíar yrðu að taka sig á í því að snúast gegn áróðri frá öðrum löndum:

„Í hernaðarstefnu Rússa frá 2014 er upplýsingaþátturinn nefndur sem fjórða grein hernaðar við hliðina á landher, flota og flugher. Markmiðið er að kljúfa, slæva og ýta undir sögusagnir og villuljós.“

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …