fbpx
Home / Fréttir / Svartfjallalandi boðin NATO-aðild árið 2017

Svartfjallalandi boðin NATO-aðild árið 2017

Jens Stoltenberg heilsar Milica Pejanović-Đurišić, varnarmálaráðherra Svartfjallalands. Á milli þeirra er Igor Lukšić, vara-forsætisráðherra og utanríkisráðherra.
Jens Stoltenberg heilsar Milica Pejanović-Đurišić, varnarmálaráðherra Svartfjallalands. Á milli þeirra er Igor Lukšić, vara-forsætisráðherra og utanríkisráðherra.

Utanríkisráherrar NATO-ríkjanna 28 „buðu“ miðvikudaginn 2. desember Svartfjallalandi (Montenegro) aðild að Atlatnshafsbandalaginu (NATO) og er við það miðað að til aðildarinnar komi eftir 18 mánuði. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði um „sögulega“ ákvörðun að ræða. NATO stækkaði síðast árið 2009 með aðild Króatíu.

Svartafjallaland sótti um aðild að NATO árið 2009. Íbúar þar eru 630.000 og hafa stjórnvöld landsins oft sætt gagnrýni fyrir spillingu. Bandaríkjastjórn tók nýlega af skarið til stuðnings aðild Svartfellinga að NATO. „Hér ekki um nein boð til Rússa að ræða,“ sagði Douglas Lute, sendiherra Bandaríkjanna hjá NATO, mánudaginn 30. nóvember. „Þetta mál snýst ekki um Rússland heldur Svartfjallaland.“ Sendiherrann áréttaði að aðild að NATO væri „ákvörðun viðkomandi ríkis“ sem nyti stuðnings meirihluta þjóðar og stjórnenda ríkisins.

Ábendingar sendiherrans um þetta efni má rekja til þess að í Moskvu hafa ráðamenn tekið NATO-aðild Svartfellinga illa og telja hana enn eina skerðingu á áhrifasvæði sínu. Það var ekki fyrr en árið 2006 sem Svartfjallaland varð sjálfstætt og skilið frá Serbíu en stjórnendur Serba hafa verið bandamenn Rússa og skapað þeim fótfestu á Balkanskaga. Rússar hafa lagt sig fram um náin tengsl við ráðamenn í Podgorcia, höfuðborg Svartfjallalands, og um þriðjungur erlendrar fjárfestingar í landinu er frá Rússum.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sagði í september 2015 að það væru „mistök“ og „ögrun“ að Svartfellingar gengju í NATO. Forsætisráðherra Svartfjallalands. Miro Djukanovic, sem áður starfaði náið með Slobodan Milosevic, þáv. forseta Serbíu,en snerist til vináttu við Vesturlönd undir lok tíunda áratugarins, gagnrýndi rússnesk stjórnvöld fyrir að hafa staðið að baki nýlegum mótmælum gegn NATO í landi sínu.

Heimild: Le Monde

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …