fbpx
Home / Fréttir / Svartfjallaland verður 29. NATO-ríkið miðað við úrslit þingkosninga

Svartfjallaland verður 29. NATO-ríkið miðað við úrslit þingkosninga

 

Milo Djukanovic, forsætisráðherra Svartfjallalands.
Milo Djukanovic, forsætisráðherra Svartfjallalands.

Milo Djukanovic, forsætisráðherra Svartfjallalands, fagnaði að morgni mánudags 17. október sigri í þingkosningunum sem fram fóru sunnudaginn 16. október og hét því að vinna áfram að aðild lands síns að ESB og NATO.

Talningu atkvæða var ekki að fullu lokið þegar forsætisráðherrann sagðist mundu leiða næstu ríkisstjórn þótt flokkur hans hefði ekki fengið hreinan meirihluta á þingi með 41% atkvæða að baki sér.

Djukanovic lagði mál fyrir kjósendur á þann veg að val þeirra stæði milli þess að tengjast Vesturlöndum eða verða „rússnesk nýlenda“.

Í sama mund og kosningin hófst var skýrt frá því að lögreglan hefði handtekið 20 serbneska málaliða sem voru sakaðir um að ætla að ræna Djukanovic sem leitt hefur stjórn landsins í aldarfjórðung.

Andrija Mandic, leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins, sagði fréttina um handtöku Serbana „furðulegt áróðursbragð“ og Aleksander Vucic, forsætisráðherra Serbíu, sagði tímasetninguna einkennilega.

Djukanovic ætlar að ræða við smáflokka á þingi um myndun meirihlutastjórnar. Hann sagði á kosninganóttina að fullyrða mætti að Svartfjallaland héldi áfram á leið sinni „á öruggan stað í Evrópu“.

Svartfjallandi hefur verið boðin aðild að NATO og nú verður gengið frá formsatriðum vegna hennar. Serbar eru hliðhollir Rússum sem hafa beitt sér mjög gegn áformunum um NATO-aðild Svartfjallalands.

Andrija Mandic er leiðtogi Lýðræðisbandalagsins sem er fylking hliðholl Serbum og Rússum. Flokkurinn fékk um 20% atkvæða í kosningunum.

Töluverð andstaða er við NATO-aðild Svartfjallalands meðal 630.000 íbúa þess ekki síst vegna loftárása undir merkjum bandalagsins á staði í Serbíu og Svartfjallalandi árið 1999. Tilgangur árásanna var að stöðva útrýmingu á fólki af albönskum ættum í Kosóvo sem þá var hluti Serbíu.

Stjórnarandstaðan sakar Djukanovic um spillingu. Hann hafnar ásökununum og segir stjórnarandstöðuna fá fé frá Moskvu sem hún segir rangt.

Svartfjallaland hlaut sjálfstæði frá Serbíu árið 2006. Rússar hafa fjárfest töluvert í landinu og sækja þangað mikið sem ferðamenn.

Heimild: BBC

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …