fbpx
Home / Fréttir / Svartahaf: Rússneskar orrustuþotur í lágflugi við bandarískan tundurspilli

Svartahaf: Rússneskar orrustuþotur í lágflugi við bandarískan tundurspilli

 

 

Bandaríski tundurspillirinn Ross og freigáta frá Úkraínu á Svartahafi
Bandaríski tundurspillirinn Ross og freigáta frá Úkraínu á Svartahafi

Nokkrar rússneskar orrustuþotur af Su-24 gerð flugu lágt við bandaríska tundurspillirinn Ross þegar hann sigldi um Svartahaf dagana 29. maí til 2. júní. Tvær Su-24 þotur steyptu sér átta sinnum niður að bandaríska herskipinu 29. maí og hinn 30. maí var leikurinn endurtekinn fjórum sinnum.

Frá þessu er skýrt af fréttastofu Jane´s. Talsmaður bandaríska flotans sagði: „Það var engin hætta á ferðum og engir tilburðir til árásar.“

Hinn 1. júni birti sjötti floti Bandaríkjanna 47 sekúnda myndband sem tekið var af skipverja um borð í Ross. Þar sést ein Su-24 þota fljúga lágt við stjórnborðshlið tundurspillisins hinn 30. maí. Sjóliðarnir sáu engin vopn undir vængjum vélarinnar. Atvikin gerðust öll á alþjóða siglingaleið og utan lofthelgi.

Ross var við æfingar á Svartahafi með freigátu frá Úkraínu. Var æfingunum lýst sem hluta af reglulegri samvinnu bandaríska flotans á Svartahafi.

Ross er einn fjögurra tundurspilla sem eru hluti af eldflaugavörnum Bandaríkjanna í Evrópu. Heimhöfn skipanna er Rota á Spáni.

Talsmaður bandaríska flotans segir að ferðir herskipa hans á Svartahafi séu heimilaðar í Montreux-sáttmálanum og alþjóðarétti.

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …