fbpx
Home / Fréttir / Stórveldadeilur vegna norðurslóða magnast

Stórveldadeilur vegna norðurslóða magnast

USS Porter, HMS Kent (F78), USNS Supply og USS Roosevelt  á sameiginlegri æfingu í Barentshafi.
USS Porter, HMS Kent (F78), USNS Supply og USS Roosevelt á sameiginlegri æfingu í Barentshafi.

 

Í frétt High North News, sem gefið er út af Nord háskólanum í Noregi, frá 25. maí kemur fram að Bandaríkjamenn hafa vaxandi áhyggjur af stöðu öryggismála á norðurslóðum.

Fyrst er þess getið að dagana 4. – 8. maí voru fimm bresk og bandarísk herskip við æfingar í Barentshafi.  Tilgangurinn var að sýna herstyrk ríkjanna og minna á að öllum er frjálst að sigla um svæðið.  Þetta var í fyrsta sinn frá níunda áratugnum sem slík æfing er haldin í Barentshafi.

Nokkrum dögum eftir að henni lauk var boðað til fréttamannafundar í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Tilefnið var að Bandaríkjamenn ætla að opna á ný sendiskrifstofu í Nuuk á Grænlandi en öryggismál á norðurslóðum voru einnig ofarlega á baugi á fundinum.

Þar kom fram að áhugi Kínverja á heimskautssvæðinu hefði aukist mikið að undanförnu.  Mikilvægt væri að átta sig á því að sumar fjárfestingar þeirra hefðu áhrif á öryggisumhverfið þar.  Því væri nauðsynlegt að meta þær í því ljósi enda gætu verkefni Kínverja stefnt öryggishagsmunum Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í hættu.

Upplýsingahernaður er hluti af sókn Kínverja á norðurslóðir og á fundinum var minnst á umfjöllum um COVID-19 faraldurinn.  Michael J. Murphy, sem fer með öryggismál Evrópu í ráðuneytinu, sagði að Kínverjar væru að dreifa fréttum í lýðræðisríkjum á norðurslóðum sem gerðu lítið úr ábyrgð Kínverja á faraldrinum.  Á sama tíma reyndu kínversk stjórnvöld að sverta orðspor Bandaríkjanna á svæðinu.

Á fundinum var líka vikið að hernaðaruppbyggingu Rússa á norðurslóðum.  Murphy nefndi að þeir hefðu komið á fót nýrri herstjórn fyrir heimskautssvæðið og væru að byggja herstöðvar þar og koma fyrir nýjum eldflaugum.  Markmið stjórnvalda í Kreml væri ekki aðeins að vernda landhelgi Rússlands heldur ætluðu þau sér líka að koma í veg fyrir liðsflutninga frá Bandaríkjunum og Kanada til Evrópu ef hættuástand skapaðist í álfunni með því að ógna GIUK-hliðinu svokallaða sem liggur á milli Grænlands, Íslands og Bretlands.

Fleiri hafa uppi varnaðarorð

Varnaðarorð fundarmanna eru í samræmi við það sem bandarísk hernaðaryfirvöld hafa haldið fram um nokkurra ára skeið.  Í frétt High North News er nefnt að í byrjun mánaðarins hafi Kenneth J. Braithwaite setið fyrir svörum hjá hermálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings vegna þess að hann var tilnefndur í embætti flotamálaráðherra.  Í umræðunum var oft minnst á öryggismál á heimskautssvæðinu.

Braithwaite sem var sendiherra í Noregi minntist talsvert á öryggismál þar.  Sagði hann að Kínverjar og Rússar væru alls staðar og að fundarmönnum myndi bregða við ef þeir áttuðu sig á umsvifum Kínverja undan norðurströnd Noregs.  Braithwaite minntist sérstaklega á áhuga Kínverja á Kirkenes í Norður – Noregi.  Þeir hefðu áttað sig á því að bærinn getur orðið mikilvæg miðstöð ef hin svokallaða Norðursiglingaleið milli Kyrrahafsins og Atlantshafsins opnast og séu því að reyna að auka áhrif sín í Norður – Noregi.

Í grein High North News er líka minnst á að 30. apríl síðastliðinn hafi James G. Foggo flotaforingi, yfirmaður Bandaríkjaflota í Evrópu, haldið ræðu hjá Flotastofnun Bandaríkjanna (e. U.S. Naval Institute) þar sem hann minntist á norðurslóðir.  Ræddi hann að mikilvægt væri að fylgjast með uppbyggingu Rússa þar enda væri hún varasöm.  Máli sínu til stuðnings nefndi hann að nýjasti ísbrjótur Rússa, Ivan Papanin, sem tilheyrði Norðurflotanum gæti borið Kalibr stýriflaugar.  Það væri afar sérstök ráðstöfun.  Flotaforinginn minnti líka á að norðurskautssvæðið skipti Bandaríkin og bandamenn þeirra í Atlantshafsbandalaginu (NATO) miklu máli líkt og fyrrnefnd flotaæfing í Barentshafi hefði sýnt.

Andmæli andstæðinganna

Formaður varnarmálanefndar rússneska þingsins, Juri Shvjitkin lét í sér heyra eftir blaðamannafundinn í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.  Sagði hann að stjórnvöld í Washington hefðu í hyggju að nota fundinn sem átyllu fyrir aukinni hernaðaruppbyggingu NATO ríkjanna á norðurslóðum.  Yfirlýsing Shvjitkins er í samræmi við orð Nikolais Korstjunovs, fulltrúa Moskvustjórnarinnar í Norðurskautsráðinu (e. Arctic Council), sem sagði fyrr á árinu að Rússar óttuðust aukna starfsemi NATO á norðurslóðum.

Kínverjar eru einnig óánægðir með skilaboð Bandaríkjamanna.  Þann 24. maí sakaði utanríkisráðherra landsins, Wang Yi, Bandaríkjastjórn um að bera út tilhæfulausar sögusagnir um viðbrögð Kínverja við Kórónuveirufaraldrinum.  Með þessu væru stjórnvöld í Washington að ýta ríkjunum út í kalt stríð.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …