fbpx
Home / Fréttir / Stoltenberg boðar öflugan viðbragðsher, hraðari boðleiðir og nýja birgða- og flutningastjórn

Stoltenberg boðar öflugan viðbragðsher, hraðari boðleiðir og nýja birgða- og flutningastjórn

Jens Stoltenberg á blaðamannafundi NATO 22. júní 2015.
Jens Stoltenberg á blaðamannafundi NATO 22. júní 2015.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, efndi til blaðamannafundar í Brussel mánudaginn 22. júní og kynnti viðfansgefni fundar varnarmálaráðherra bandalagsins sem verður í höfuðstöðvunum í Brussel 24. og 25. júní.

Meginefni fundarins snýst um viðbrögð NATO við breyttum og brýnum verkefnum á sviði öryggismála. Þar er glímt við flóknari og erfiðari verkefni en við hafa blasað um langt skeið. Sagði framkvæmdastjórinn að viðbrögð NATO einkenndust af samstöðu og einurð.

Hann sagðist fyrir fáeinum dögum hafa verið í Póllandi og fylgst með fyrstu æfingu hraðliðs NATO sem kallast Spjótsoddurinn. Sjö NATO-ríki verða í forystu þessa liðs á næstu árum. Sex nýjar, litlar herstjórnarstöðvar eru í smíðum í austurhluta bandalagssvæðisins.

Stoltenberg boðaði að varnarmálaráðherrarnir mundu ákveða stærð  viðbragðshers NATO og væri stefnt að 30.000 til 40.000 sem væri tvöföldun á mannafla frá því sem nú væri.

Spjótsoddurinn er kjarni viðbragðsheraflans. Í febrúar var ákveðið að eitt stórfylki myndaði landher hans. Á fundinum nú verður ákveðið hvernig háttað verði þátttöku flughers, flota og sérsveita í Spjótsoddinum.

Þá taldi framkvæmdastjórinn nauðsynlegt að huga að skipulagi og boðleiðum við töku pólitískra og hernaðarlegra ákvarðana svo að með hraði, festu og skýru pólitísku umboði mætti gefa fyrirmæli til viðbragðshers NATO.

Ætlunin er að SACEUR, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, fái auknar heimildir til að búa hersveitir undir aðgerðir og senda þær af stað eftir að pólitísk heimild hefur fengist til þess.

Í þriðja lagi sagði Stoltenberg að komið yrði á fót birgða- og flutningastjórnstöð innan herstjórnakerfis NATO til að hafa yfirstjórn liðs- og birgðaflutninga um bandalagssvæðið.

NATO hefur nýlega birt greinargerð um útgjöld aðildarríkja til varnarmála árið 2014 og áætlun fyrir árið 2015 en samkvæmt henni er gert ráð fyrir að fimm aðildarríki nái settu markmiði um 2% útgjöld miðað við verga landsframleiðslu (VLF): Bandaríkin, Bretland, Eistland, Grikkland og Pólland. Talið er að raunútgjöld til varnarmála aukist á árinu í 18 aðildarríkjum.

Framkvæmdastjórinn sagði þetta lofa góðu en þó yrði að gera betur og snúa frá samdrætti í útgjöldum sem einkennt hefði síðustu ár.

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …