fbpx
Home / Fréttir / Stefnt að evrópsku loftvarnakerfi í Þýskalandi

Stefnt að evrópsku loftvarnakerfi í Þýskalandi

Urslula van der Leyen
Urslula van der Leyen

 

Áform eru um að endurnýja loftvarnir Þýskalands með nýju kerfi og auk þess að ráðast í smíði nýs orrustuskips. Útgjöld vegna þessa eru talin munu nema átta milljörðum evra og eru hin mestu sem Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, hefur ákveðið síðan hún tók við embætti sínu eftir þingkosningar haustið 2013.

Við ákvörðun um loftvarnakerfið stóð valið á milli bandaríska Patriot-kerfisins sem smíðað er af Raytheon og bandaríska-ítalska-þýska kerfisins Meads sem að lokum var ákveðið að kaupa.

Raytheon taldi sig lengi hafa forskot vegna reynslu sinnar og þess að þýski herinn hefur nýtt sér eldri gerð af Patriot-loftvarnaflaugum. Þegar Þjóðverjar töldu ekki nægilegt að kerfið styddist við 120 gráðu radar eins og til þessa heldur 360 gráðu, það er að með kerfinu mætti miða í allar áttir, lenti Raytheon í vandræðum og varð að hefja rannsóknar- og þróunarvinnu. Þá skapaði sveigjanleiki Meads-kerfisins því forskot, það er að auðveldara var að tengja það ólíkum grunnbúnaði en Patriot-kerfið.

Að lokum réð að líkindum úrslitum um valið á  að semja um Meads-kerfið að tæknileg þekking að baki því er fyrir hendi í Þýskalandi og því enginn vafi um aðgang að henni eins og gæti orðið ef sækja yrði allt til Bandaríkjanna. Forveri von der Leyen í ráðherraembætti sætti miklu ámæli fyrir hvernig var staðið að misheppnaðri töku ákvarðana um kaup á drónum fyrir þýska herinn, Euro Hawk. Þar sigldi allt í strand vegna þess að ekki fengust heimildir til að nýta þekkingu sem fyrir hendi var í Bandaríkjunum fyrr en eftir dúk og disk og með ærnum kostnaði.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …