fbpx
Home / Fréttir / Stefnir í stórpólitíska deilu Kínverja og Bandaríkjamanna vegna yfirráða á S-Kínahafi

Stefnir í stórpólitíska deilu Kínverja og Bandaríkjamanna vegna yfirráða á S-Kínahafi

Á kortinu sjást Spratleyjar sem deilt er um í Suður-Kínahafi.
Á kortinu sjást Spratleyjar sem deilt er um í Suður-Kínahafi.

Stórpólitískur ágreiningur milli Kínverja og Bandaríkjamanna skerpist eftir að her Kína hefur aukið umsvif sín á umdeildum smáeyjum í Suður-Kínahafi, Spratleyjum. Í augum Kínverja er álíka fráleitt að Bandaríkjamenn skipti sér af því sem gerist á Suður-Kínahafi og Kínverjar láti að sér kveða á Mexíkóflóa segir Martin Jacques, sérfræðingur í málefnum Kína.

Kínverjar einir gera ekki tilkall til eyjanna heldur einnig Filippseyingar, Víetnamar og Tævanir. Undanfarna 18 mánuði hafa Kínverjar hins vegar stóraukið herafla sinn á eyjunum. Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lýsti laugardaginn 30. maí áhyggjum yfir áformum Kínverja.

Carter hefur tekið af öll tvímæli um  að Bandaríkjamenn muni ekki viðurkenna eyjarnar sem kínverskt landsvæði.

Þar með hefur verið lagður grunnur að stórpólitískri deilu milli tveggja stærstu risavelda heims. Deilan getur breyst í kalt stríð milli ríkisstjórna landanna þegar fram líða stundir.

Þetta er mat breska blaðamannsins, fræðimannsins og Kína-sérfræðingsins Martins Jacques sem er höfundur alþjóðlegu metsölubókarinnar: When China Rules the World – Þegar Kína stjórnar heiminum.

„Eyjarnar eru vettvangur fyrstu alvarlegu prófraunarinnar í samskiptum þjóðanna tveggja. Bandaríkin hafa verið eina raunverulega risaveldi heims frá hruni Sovétríkjanna en það er mjög erfitt að ímynda sér að Kína eflist ekki enn frekar af auði og valdi,“ segir Martin Jacques við danska blaðið Jyllands-Posten laugardaginn 30. maí. „Þess vegna skiptir mestu nú aða átta sig á hvað kann að gerast í Suðaustur-Asíu þegar Kínverjar láta af alvöru að sér kveða.“

Hann segir samskipti Kínverja og Bandaríkjamanna hafa versnað síðan Barack Obama Bandaríkjaforseti og Xi Jingping Kínaforseti hittust í Los Angeles fyrir réttum tveimur árum.

Þá þegar spáðu sérfræðingar því að árekstur yrði milli þjóðanna vegna ólíkra hagsmuna á Suður-Kínahafi. Martin Jacques segir tvær meginástæður fyrir kröfu Kínverja til Spratl-eyjanna. Aðra má rekja til gæslu öryggishagsmuna, Suður-Kínahaf sé hernaðarlega mikilvægt fyrir þá. Hin sé söguleg:

„Kínverjar telja sig hafa sögulegan rétt til yfirráða á hafinu og önnur ríki hafi aðeins nýtt sér veika stöðu Kína til að ná því á sitt vald. Nú er Kína sterkt að nýju og þá vilja menn öðlast fyrri yfirráð.“

Martin Jacques segir að nú verði spennandi að vita hvort Bandaríkjamenn geti skilið þankagang Kínverja. Vilji vestræn ríki komast hjá köldu stríði við Kína þegar fram líða stundir verða ráðamenn þeirra að setja sig í spor Kínverja og skilja hvernig þeir hugsa og hvernig þeir líta á sjálfa sig.

„Við megum ekki gleyma að heimsmynd okkar á Vesturlöndum er tiltölulega ný. Í stórum dráttum hefur hún mótast á undanförnum 200 árum. Heimsmynd Kínverja á sér mun dýpri sögulegar rætur, þess vegna hugsa þeir einnig á allt annan hátt. Í þeirra augum er álíka fráleitt að Bandaríkjamenn skipti sér af því sem gerist á Suður-Kínahafi og Kínverjar láti að sér kveða á Mexíkóflóa,“ segir Martin Jacques.

Heimild: Jyllands-Posten

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …