fbpx
Home / Fréttir / Spenna magnast milli Tyrkja og Frakka

Spenna magnast milli Tyrkja og Frakka

Erdogan og Macron
Erdogan og Macron

Franska stjórnin tilkynnti laugardaginn 24. október að hún kallaði sendiherra sinn í Tyrklandi heim til skrafs og ráðagerða eftir að Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti gaf til kynna að Emmanuel Macron Frakklandsforseti þyrfti að fara í geðrannsókn.

Frakkar og Tyrkir deila um mörg mál þar á meðal ráð yfir hluta austurhluta Miðjarðarhafs, Líbíu, Sýrland og stigmögnuð átök milli Armena og Azera vegna Nagorno-Karabakh.

Stjórnvöld í Ankara eru hins vegar mjög reið vegna þess að Macron hefur hafið markvissa baráttu til að verja veraldleg gildi Frakka gegn öfgafullum múslimum. Þunginn í þessari baráttu jókst þegar franskur sögukennari var afhöfðaður fyrir að sýna skopmynd af Múhameð spámanni.

„Hvað getur maður sagt um þjóðarleiðtoga sem kemur þannig fram við milljónir manna sem aðhyllast aðra trú: í fyrsta lagi, farðu í geðrannsókn,“ sagði Erdogan í ávarpi sem sjónvarpað frá borginni Kayseri í Anatolíu.

„Hvaða vandamál skapar Íslam og múslima fyrir einstakling sem heitir Macron?“ spurði Erdogan. „Macron þarfnast meðferðar geðlæknis.“ Hann gaf til kynna að Macron næði ekki endurkjöri árið 2022.

Starfsmaður í frönsku forsetaskrifstofunni sagði að sendiherrann í Ankara myndi ræða við Macron þegar hann kæmi til Parísar um stöðu mála eftir reiðilestur Erdogans. Embættismaðurinn sagði:

„Ummæli Erdogans eru óviðunandi. Offors og dónaskapur ganga ekki. Við krefjumst þess að Erdogan breyti um stefnu því að hver þáttur hennar er hættulegur.“

Franski embættismaður forsetaskrifstofunnar sem vildi ekki koma fram undir nafni sagði að frönsk yfirvöld hefðu veitt því athygli að tyrkneski forsetinn hefði ekki sent „samúðar- og stuðningskveðjur“ eftir morðið á sögukennaranum Samuel Paty í útborg Parísar.

Átökin milli Armena og Azera vegna Nagorno-Karabakh ýta undir spennu milli Macrons og Erdogans. Meirihluti íbúanna í héraðinu er armenskur en það er innan landamæra Azerbaidjan. Armenar lýstu yfir sjálfstæði héraðsins við hrun Sovétríkjanna fyrir tæpum þrjátíu árum síðan hafa um 30.000 manns fallið í átökum á þessum slóðum.

Tyrkir veita Azerum öflugan stuðning en þeir hafna ásökunum Macrons um að hafa sent hundruð sýrlenskra vígamanna til að berjast við hlið Azera.

Laugardaginn 24. október sakaði Erdogan Frakka – sem ásamt Rússum og Bandaríkjamönnum leiða Minsk-hópinn við að leysa Nagorno-Karabakh-átökin – um að „standa að baki hörmungum og hernámi í Azerbaidjan“.

Í Frakklandi er stór hópur útlægra Armena og saka Tyrkir frönsk stjórnvöld um að senda Armenum vopn. „Þið haldið að þið komið á friði á nýjan leik með því að senda vopn til Armena. Þið getið það ekki því að þið eruð ekki heiðarlegir,“ sagði Erdogan og talaði til Frakka.

Tyrklandsforseti magnar óvild í garð Frakka stig af stigi og hvetur til andófs íslamista gegn Macron.

 

 

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …