fbpx
Home / Fréttir / Skotar vilja aðra atkvæðagreiðslu um sjálfstæði – Salmond-málið veldur SPN vanda

Skotar vilja aðra atkvæðagreiðslu um sjálfstæði – Salmond-málið veldur SPN vanda

Nicola Sturgeon
Nicola Sturgeon

Ný könnun greiningarfyrirtækisins Ipsos Mori sýnir að 58% Skota vilja sjálfstæði. Stuðningur við sjálfstæðissinna hefur aldrei verið meiri síðan 55% þátttakenda í atkvæðagreiðslu felldu tillögu um sjálfstæði árið 2014. Könnunin var gerð í byrjun október.

Stjórnmálaskýrendur segja að aukinn stuðningur við sjálfstæði í Skotlandi sé svar fólks þar við úrsögn Bretlands úr ESB, brexit, en í atkvæðagreiðslunni um ESB-aðildina sumarið 2016 vildi meirihluti Skota halda áfram í ESB.

Áhugi Skota á sjálfstæði hefur aukist jafnt og þétt eftir að Boris Johnson varð forsætisráðherra Breta. Hann hefur staðfastlega lýst andstöðu við nýja þjóðaratkvæðagreiðslu meðal Skota.

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skota, og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins (SNP), færði fyrr á árinu rök fyrir réttmæti þess að Skotar fengju að efna til nýrrar atkvæðagreiðslu um sjálfstæði sitt. Mörgum ofbauð hroki breska forsætisráðherrans þegar svarið frá skrifstofu hans var, að bærist bréf þangað með beiðni Skota um atkvæðagreiðslu yrði skráð á umslagið: Endursendist til sendanda. Eftir að niðurstaða nýju könnunarinnar var birt sagði talsmaður forsætisráðuneytisins að Skotar hefðu greitt atkvæði 2014 og þeir ættu ekki inni neitt loforð um aðra atkvæðagreiðslu.

Í könnunum lýsa 70% Skota ánægju með Nicolu Sturgeon og stjórnarhætti hennar en þrír þeirra af hverjum fjórum telja að Boris Johnson standi sig illa í embætti. Honum sé ekki treystandi fyrir skoskum málefnum.

Skoski þjóðarflokkurinn og Nicola Sturgeon glíma við vanda sem kann að reynast þeim erfiður. Þar er vísað til máls sem snertir forvera Sturgeon í ríkisstjórn og innan SNP, Alex Salmond, sem var fyrsti ráðherra SNP 2007 til 2014. Hann var sakaður um að hafa tólf sinnum beitt konur kynferðislegri áreitni þar á meðal samstarfskonur sínar. Dómari sýknaði hann af öllum þessu ásökunum fyrr á þessu ári.

Í skoska þinginu er nú rannsakað hvernig vitneskju um framferði Salmonds var háttað innan SNP. Nicola Sturgeon hefur farið óljósum orðum um hvenær hún fékk vitneskju um ásakanirnar í garð Alex Salmonds og grunsemdir hafa vaknað um að SNP hafi ef til vill reynt að halda upplýsingum varðandi vinsælan fyrrverandi formann sinn leyndum. Nicola Sturgeon hefur auk þess gefið ólíkar skýringar um vitneskju sína.

Það flækir málið enn frekar fyrir SPN að Peter Murrell, eiginmaður Nicolu Sturgeon, framkvæmdastjóri SPN, er sagður hafa reynt að þrýsta á að lögreglan rannsakaði Alex Salmond. Í Skotlandi velta menn fyrir sér hvort samskiptum hjónanna í forystu SNP sé þannig háttað að þau hafi haft ólíka vitneskju um klögumál innan flokksins á hendur Salmond.

Nú krefjast þingmenn sem sitja í nefndinni sem rannsakar Alex Salmond-málið að Nicola Sturgeon sæti rannsókn, hún kunni að hafa veitt þeim rangar upplýsingar. Grunsemdir um það hafa þó alls ekki dregið úr vinsældum Nicolu Sturgeon meðal Skota. Hún er vinsælli nú en nokkru sinni fyrr.

 

Heimild: Jyllands-Posten

 

 

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …