fbpx
Home / Fréttir / Skosklr sjálfstæðissinnar styrkjast í þingkosningum

Skosklr sjálfstæðissinnar styrkjast í þingkosningum

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands.

Flokkar sem vilja sjálfstæði Skotlands og úrsögn úr Sameinaða konungdæminu (United Kingdom) fengu meirihluta á skoska þinginu í kosningum til þess fimmtudaginn 6. maí. Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) fékk 64 þingsæti af 129, Íhaldsflokkurinn 31, Verkamannaflokkurinn 22, Skoskir græningjar 8 og Frjálslyndir 4. Græningjar vilja sjálfstæði Skotlands eins og SNP og þar með meirihluti nýkjörinna skoskra þingmanna.

Þegar úrslitin lágu fyrir laugardaginn 8. maí sagði leiðtogi SNP, Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, að í krafti úrslitanna mundi hún þrýsta á um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði landsins en Skotar felldu tillögu um það í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014, 55% gegn 45%.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, er andvígur nýrri skoskri þjóðaratkvæðagreiðslu. Nicola Sturgeon segir að afstaða Johnsons sé fráleit og til skammar, hann geti ekki haft lýðræðislegan vilja meirihluta kjósenda að engu.

Flokkur Sturgeon sigraði nú í þingkosningum fjórða skiptið í röð og fer áfram með stjórn Skotlands.

Breska stjórnin segir að hún og Boris Johnson forsætisráðherra verði að veita samþykki sitt til að lögmæt þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram í Skotlandi. Johnson segir ábyrgðarleysi að ganga til hennar núna. Atkvæðagreiðslan frá 2014 gildi fyrir núlifandi kynslóð Skota.

Talsmenn atkvæðagreiðslunnar í Skotlandi segja að lýðræðislegt umboð sé að baki þeim. Breska ríkisstjórnin segir að lögin séu að baki sér. Líklegt er að það verði að lokum dómarar sem taki af skarið í deilunni.

Meirihluta Skota var andvígur úrsögn úr ESB í brexit-artkvæðagreiðslunni 2016. Nicola Sturgeon vill Skotland inn í ESB að fengnu sjálfstæði. Þá þykir hún hafa staðið sig vel gegn COVID-19-faraldrinum. Allt hefur þetta styrkt stöðu hennar þrátt fyrir deilur hennar við Alex Salmonnd, forvera hennar í leiðtogasæti SPD. Almenn andúð á Boris Johnson í Skotlandi var einnig vatn á myllu Sturgeon sem jók fylgi flokks síns um eitt þingsæti og skorti aðeins einn þingmann til að hljóta hreinan meirihluta.

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …